Nú standa Hinsegin dagar yfir með tilheyrandi fjöri og hvað er þá betra en að búa til dásamlega litríkan ísdrykk í tilefni daganna.
Sem dæmi væri hægt að bjóða upp á þessa flottu ísa sem hún Sigrún á Cafe Sigrún gefur okkur uppskrift að:
Fyrir 2 glös sem hvort tekur 300 ml
INNIHALD
100 g jarðarber
100 g mango
1 tsk gulrótarsafi
100 g ananas
100 g kiwi
40 g bláber
2-4 msk vatn
80 g vínber
3 msk jógúrt (má sleppa)
AÐFERÐ
Snyrtið alla ávextina og skerið í bita. Maukið alla ávextina sér (þrífið blandarann á milli) og setjið í sér skálar. Hrærið gulrótarsafanum í mangomaukið.
Hrærið jógúrtina í vínberjasafann, gætið þess að hræra vel svo engar hvítar rákir séu til staðar.
Takið til tvö glös sem hvert um sig tekur a.m.k. 300 ml. Hvert lag á að vera um 2 sm og er gott að merkja með tússlit og litlum punktum hvar hvert lag byrjar.
Rétt röð er svona: Rauður er efstur, því næst appelsínugulur, gulur, grænn, blár og fjólublár.
Hellið vínberja- og jógúrtsafanum sem fyrsta lag. Frystið í um klukkustund eða lengur.
Raðið bláberjum upp að næsta punkti þannig að þau þeki alveg vínberjalagið. Bætið 1-2 msk af vatni út á þannig að þau nái rétt upp fyrir bláberin. Frystið. Næstu skuluð þið hella kiwimaukinu út í glasið, að næsta punkti. Frystið. Hellið ananasmaukinu út í að næsta punkti og frystið. Hellið mangomaukinu (og gulrótarsafanum) að næsta punkti og frystið. Að síðustu skuluð þið hella jarðarberjamaukinu út í, að síðasta punkti. Frystið. Frystið í um klukkustund.
Takið úr frystinum og látið þiðna með 2-3ja klukkustunda fyrirvara eða eftir því hversu frosinn ísinn á að vera.
Skál í boðinu og gleðilegt Gay Pride!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.