Sörur… mmmm, – eru til betri smákökur?! Nei, örugglega ekki.
Þessar himnesku smákökur eru örlítið flóknar í gerð en vissulega þess virði að maður leggi þær á sig.
Hér er uppskrift af Gott í matinn, – hinar fullkomu Sörur. Gerið svo vel.
Um 40 kökur fást úr þessari uppskrift.
Botninn
100 g möndlur, fínmalaðar í matvinnsluvél með sykrinum
85 g flórsykur
2 stk eggjahvítur
Kaffikrem/þetta klassíska
125 g dökkt súkkulaði, 56%
125 ml sterkt kaffi eða kaffilíkjör
90 g smjör
Hindberjakrem/fyrir þá sem vilja breyta til
150 g hvítt súkkulaði
75 g hindber, fersk eða frosin
100 g rjómaostur, Gott í matinn, má nota smjör
Til hjúpunar
200 g súkkulaði, hvítt eða dökkt til hjúpunar
Botninn, aðferð
Hitið ofninn í 180˚C. Blandið saman fínmöluðum möndlum og sykri. Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið möndlusykrinum varlega saman við með sleif. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu. Setjið blönduna með teskeið eða sprautið með sprautupoka 3 cm stórar doppur á bökunarplöturnar. Bakið kökurnar í 10-11 mínútur. Látið kökurnar kólna lítilega á plötunni áður en þær eru losaðar af pappírnum með spaða. Látið kökurnar fullkólna á grind.
Kaffikrem, aðferð
Bræðið súkkulaðið með kaffinu eða líkjörinum. Bætið köldu smjöri í smábitum út í og hrærið saman við súkkulaðið. Kælið kremið í ísskáp þar til að það hefur þykknað. Sprautið kreminu á botnanna á kökunum. Kælið í u.þ.b. einn klukkutíma áður en fyllingin er hjúpuð með súkkulaði.
Hindberjakrem, aðferð
Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði. Bætið rjómaostinum eða smjöri saman við bráðið súkkulaðið. Hrærið vel saman og bætið hindberjunum saman við. Kælið kremið í ísskáp þar til að að það hefur þykknað. Sprautið kreminu á botninn á kökunum. Kælið í u.þ.b. einn klukkutíma áður en fyllingin er hjúpuð með súkkulaði.
Súkkulaðihjúpur
Bræðið súkkulaði í vatnsbaði og penslið því yfir kremið. Notið dökkt súkkulaði til að hjúpa yfir kökurnar með kaffikreminu en hvítt súkkulaði til að hjúpa yfir hindberjakremið. Látið súkkulaðið kólna og geymið kökurnar í frysti. Takið kökurnar úr frystinum 10 mínútur áður en þær eru bornar fram.
Höfundur: Inga Elsa Bergþórsdóttir
Njótið!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.