Reykjavik
23 Mar, Saturday
-2° C
TOP

UPPSKRIFT: Himneskar amerískar banana pönnukökur í brönsinn!

Hvað er betra en að borða góðan “brönch” á fallegum degi. Þessar pönnukökur eru hollar og bragðgóðar. Sætindin koma frá bönununum og ég vildi alls ekki bæta meiri sykri… enda er það óþarfi í þessari uppskrift.

INNIHALD

  • 5 dl spelt (fínt og gróft til helminga)
  • 4 tsk. vínsteinslyftiduft
  • 1/2 tsk. himalaya salt
  • 2 tsk. kanill eða vanilluduft
  • 3-4 dl mjólk (möndlu, soya, eða kúamjólk)
  • 2 egg
  • 2 msk. olía
  • 3 þroskaðir bananar, stappaðir

AÐFERÐ

Blandið öllum þurrefnunum saman í skál. Bætið síðan mjólkinni, eggjum og olíu saman við og blandið þar til það er þykkt og kekkjalaust. Bætið síðan bönununum útí og hrærið saman. Blandan á að vera nokkuð þykk. Til að steikja pönnukökurnar þá nota ég 1 tsk. olíu sem ég nudda á pönnuna með eldhúsrúllu áður en ég kveiki undir pönnunni.
Ég steiki þær síðan á meðalhita. Þegar holur birtast ofan á pönnukökunum, og það er auðvelt að lyfta þeim af pönnunni án leka, þá snýrðu þeim við. Það tekur sirka. 2 mínútur á hverri hlið.

Borið fram með lífrænu hlynsírópi, agave, hunangi og ferskum ávöxtum. Fullkomið með ferskum ávaxtasafa og góðum kaffibolla…mmm!!

Guðný H. Sigmundsdóttir er hársnyrtir að mennt og með gífurlegan áhuga á flestu sem eykur á heilbrigði og vellíðan. Hún elskar að baka og útbúa hollan mat, hefur brennandi áhuga á leiklist og hefur stundað hana í tvö ár ásamt því að starfa sem sölu og markaðsmanneskja.