Áttu örbylgjuofn sem þú notar allt of sjaldan? Hvernig væri að baka köku á innan við 10 mínútum? Snilld ef þú þarft að rigga upp smá veislu í snarhasti.
Vinkonur okkar hjá mömmur.is eru með kökurnar algerlega á hreinu og fæstar komast með tærnar þar sem þær hafa hælana.
Þessa flottu uppskrift fengum við hjá þeim og ætlum að skella í svona við fyrsta tækifæri. Kannski bara á eftir? Nei kannski ekki… en amk um helgina.
INNIHALD
140 g hveiti
175 g sykur
3 msk kakó
3 tsk lyftiduft
2 egg
100 ml olía
100 ml heitt vatn
1 1/2 tsk vanilludropar
Kökuskraut að vild
AÐFERÐ
Öll hráefnin sett í skál og hrært vel saman með pískara. Deigið sett í smurt mót (ca. 24-26 cm) , sem þolir örbylgjuofn. Stillið örbylgjuofninn á 800 wött og bakið kökuna í 7 mínútur. Að þessum tíma liðnum er gott að stinga með prjóni í miðjuna á kökunni til að athuga hvort hún sé tilbúin. Kælið og setjið kremið ofaná.
Krem:
100 g dökkt súkkulaði
5 msk rjómi
Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði. Blandið rjómanum saman við og hrærið vel saman.
Klár eftir 7 mínútur í örbylgjuofninum –bökunarformið er pappaform sem fæst í Krónunni – algjör snilld og þægilegt að nota í önnur form. Formin henta fyrir örbylgjuofna.
Hægt er að nota sérstakan munsturspaða til að búa til munstrið á kreminu – vel hægt að gera þetta með gaffli og fá svipað munstur.
Kökuskraut komið ofan á fæst í Allt í köku, Ármúla.
Njóttu gersamlega í botn með góðum cappuchino eða köldu mjólkurglasi og finndu svo fleiri kökur á mömmur.is
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.