Dísa, kennd við WorldClass, er ein þeirra íslensku kvenna sem kalla má fyrirmynd í málum sem snúa að heilsunni og góðum lífsstíl.
Hún æfir að eigin sögn helst fjórum sinnum í viku og borðar hollan og góðan mat til að viðhalda heilsunni og vera í toppformi, – sem hún er alltaf. Dísa stundar styrktarþjálfun í tækjum og hóptímum, þolþjálfun á hlaupabretti, spinning og pallatímum og fer í hot yoga til að teygja á vöðvum og styrkja:
“Ég er ekki fyrir öfga í neina átt. Tel að fjölbreytni sé lykillinn og allt sé gott í hófi en er alltaf með það markmið að rækta sjálfa mig og huga vel að heilsunni.”
Spurð út í mataræðið segist hún borða hrökkkex, ávexti, heilsusafa og hafragraut á milli mála eða í morgunmat og snertir ekki djúpsteiktan mat. “Ég gæti hinsvegar aldrei gefið góða nautasteik upp á bátinn.”
Og þá er það hrökkkexið sem hún borðar svo gott sem daglega en við erum svo heppnar að fá þessa uppskrift hjá henni og því verður sannarlega skellt í ofn við fyrsta tækifæri. Svo borðum við það þangað til við verðum jafn flottar og hún Dísa 😉
Dísu Hrökkbrauð
Hita ofninn ca 180°C
- 1 dl sólblómafræ
- 1 dl hörfræ
- 1 dl sesamfræ
- 1 dl graskersfræ (must)
- 1 dl gróft haframjöl
- 3 dl fínt spelt
- 1 tsk fínt himalayasalt ( má bæta smá rifnum osti útí )
- þurrefnum blandað saman í stórri skál
- 2 dl vatn 1 1/4 dl olía (bragðlitla)
Hrært saman í stóru glasi og svo öllu blandað saman, ekki hræra mikið útaf speltinu.
Deiginu er skipt til helminga á tvær ofnplötur, sett á bökunarpappír og flatt út, ekki hafa það of þykkt. Ágætt að setja bökunarpappír yfir og fletja það út , það er auðveldara. Skorið með pizzuskera í bita áður en það fer inní ofninn. Bakað þar til fallegt á litinn.
Njótið!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.