Uppskrift: Hækkandi sól og heimagerð pizza með speltbotni

Uppskrift: Hækkandi sól og heimagerð pizza með speltbotni

146bad8ac8e2618d82f66d5fea708b0eKærkomin helgi framundan og gaman að segja frá því að frá 1.jan til 1.feb hefur dagur lengst um 65 mín.  Sólarupprás er kl. 7:15 í stað kl. 7:36 og sólarlag er kl. 16:39 í stað kl. 15:56.  Alltaf er þetta jafn spennandi.

Það er alltaf erfitt að koma sér aftur af stað eftir veikindi eða eitthvert stopp.  Ekkert að hugsa annað en að mæta strax í ræktina og þú sérð ekki eftir því.

Ef þú missir af æfingu þá ertu eflaust með móral og best að vinna upp tímann sem fyrst, annaðhvort með því að mæta í annan tíma eða taka aukaæfingu heima. Það þarf ekkert meira en 20 mín.  Frábær viðbót sem þú finnur fyrir.

Það jafnast ekkert á við heimalagaða pítsu og er nokkuð viss um að þið séuð sammála mér um það. 

Þessi botn, sem ég fann upphaflega hér á Pjatt.is er einfaldlega sá besti sem ég geri og er ánægð með að hann er líka miklu hollari en gerbotnarnir.  Þú einfaldlega verður að prófa. 

Sérlega fljótlegur botn:

 • 5 dl spelt, nota til helminga fínmalað og grófmalað, nota líka oft heilhveiti og venjulegt til helminga
 • 1 tsk sjávarsalt
 • 2 msk olía
 • 3 tsk vínsteins lyftiduft
 • 1 msk krydd (t.d. oregano, timjan, basiliku, pizzakrydd) ég nota krydd frá pottagöldrum
 • 3 dl létt ab-mjólk

Blandið spelti, lyftidufti, salti og kryddi saman.

Bætið svo olíunni saman við og AB-mjólkinni á meðan þið hrærið blöndunni létt saman þangað til að deigkúla myndast, passa að ofhræra ekki. Hnoðið bara létt og lítið. Fletjið deigið út á smjörpappír. Botninn á eftir að tvöfaldast að þykkt í ofninum, þannig að það má dreifa svolítið vel úr deiginu.

Forbakað í 200 gráðu heitum ofni í 5 mín, tekin út og sett pizzasósa og álegg, bakið áfram í 10 mín í viðbót.

PIZZUSÓSA sem gott er að gera, stundum nota ég bara venjulega pizzusósu og  það er líka sniðugt að blanda saman hollri tómatpúrru og tómatsósu saman t.d. frá Sollu, það geri ég mjög oft og krakkarnir mínir finnst það best, miklu betra en keypt pizzusósa.

 • 1 dós niðursoðnir tómatar
 • 2 msk tómatpúrra
 • 1-2 hvítlauksrif – pressuð
 • 2 tsk oregano
 • 2 tsk basil
 • 2 tsk timian
 • 1 tsk sjávarsalt
 • 1/4 tsk nýmalaður svartur pipar

Blandið öllu vel saman

Á mína pizzu set ég hvaða grænmeti sem er og strái svo mozzarella osti yfir og krydda með aðeins meira pizzakryddi.  Sparipizzan er að skera kjúklingabringur í strimla og steikja létt á pönnu, krydda með t.d. afrísku kjúklingakryddi frá Pottagöldrum og framhaldið með grænmeti.

Toppa hana svo með klettasalati í lokin, ummm! Annars er að nota bara það sem er til hverju sinni og láta hugmyndarflugið ráða. Þá er um að gera að prófa.

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest