Bröns, eða dögurður, er algjörlega uppáhalds máltíðin mín af þeim öllum.
Mér finnst bröns frábær leið til að njóta helgarinnar, og í raun getur brönsinn, eða dögurðurinn, verið ódýr og skemmtileg leið til að smala vinum og ættingjum heim í eldhúsið að njóta tilverunnar saman. Mikið einfaldara en að halda þríréttaðan kvöldverð með tilheyrandi umstangi.
Þú getur boðið upp á margskonar mat í dögurði en ef eitthvað er alveg ómissandi þá eru það eggin.
Þau má auðvitað framreiða með ýmsum hætti, hrærð á pönnu, í ommilettu, spæld eða þá í svona böku eins og sjá má á meðfylgjandi mynd sem ég tók nú um páskahelgina.
Eggjabakan er mjög skemmtileg aðferð af því hún er í raun fljótleg og alveg sérlega ljúffeng. Ég skora á þig að prófa að gera svona böku í stað þess að steikja, sjóða eða spæla… er til dæmis annar í páskum ekki tilvalinn í góðan bröns með þínum uppáhalds?
Athugaðu að grunnurinn í henni er í raun ostur og egg og svo máttu gera tilraunir að vild. Svona er þetta með svo margt í matargerð.
Við lærum bara eina grunn-uppskrift og gerum svo tilraunir. Í þessa böku væri t.a.m hægt að setja fetaost og grænt pestó, geitaost og valhnetur, spínat, furuhnetur og feta… möguleikarnir eru margir. En hér er uppskriftin að minni sem er innblásin af ítalskri matargerð, – sem ég hreinlega elska… (hver gerir það ekki?).
INNIHALD
2 bollar rifinn cheddar ostur
2 bollar rifinn mozarella og/eða gouda ostur
2 msk smjör
Sveppir
Fínt saxaður rauðlaukur
Lúka af fersku basil, klippt niður
5 konfekt tómatar, skornir í sneiðar
Rautt pestó
8 egg
1 3/4 bolli rjómi eða mjólk
1/2 bolli spelt
Salt og pipar
AÐFERÐ
Hitaðu ofninn í 175 gráður
Blandaðu saman cheddar og mozarella í skál og dreifðu svo 2/3 af ostinum í eldfast mót.
Bræddu smörið og steiktu sveppi og lauk þar til grænmetið verður mjúkt. Í svona 5 mínútur. Dreifðu svo yfir ostinn. Ef þú vilt geturðu þú sett smátt skorna skinku (chorizo eða hráskinku) yfir grænmetið og svo topparðu þetta aftur með rifnum osti.
Hrærðu saman eggjunum í stórri skál og bættu við mjólk/rjóma, spelti (eða hveiti), basil, salti og pipar.
Helltu eggjunum rólega yfir blönduna í eldfasta mótinu. Leggðu tómatsneiðar yfir og toppaðu svo með rest af osti.
Bakaðu í miðjum ofni í 35-40 mínútur eða þar til prjónn sem stungið er í miðjuna kemur hreinn út. Láttu bökuna svo standa í 10-15 mín áður en þú berð hana fram með rauðu pestó, góðu ristuðu brauði og blöndu af appelsínusafa og sódavatni.
Gersamlega dásamlegur dögurður!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.