Ég hef svo gaman að því að leika mér í eldhúsinu eins og áður hefur komið fram hér á Pjattinu.
Ég reyni einnig að hafa flest allt sem ég baka og elda í heilsusamlegri kantinum og það er eiginlega smá áskorun fyrir mig að búa til eitthvað hollt og virkilega gott. Ef börnunum okkar finnst það gott þá brosi ég allan hringinn því þau eru sko mjög hreinskilin og ég fæ alveg að vita af því ef að ég elda og baka eitthvað sem þeim líkar, eða ekki…
Þessa uppskrift bjó ég til sjálf en hún sló rækilega í gegn hér heima hjá mér. Það tekur bara 5 mínútur að útbúa og þarf ekki nema 10 mínútur í ofninum.
Þú þarft:
- 2 dl fínmalað spelt
- 2 dl lífrænir tröllahafrar
- 1/2 tsk matarsódi
- 1/2 tsk kanill
Þurrefnunum er blandað saman með sleif
- 50 ml lífrænt hunang
- 1 egg
- 50 gr íslenskt smjör
- 1 msk kókosolía
Smjörið er brætt og er kókosolían sett út í og blandað saman við ásamt egginu og hunanginu.
Svo er þetta sett á plötu í hæfilegri stærð og þú endar á að skera niður grænt epli í litla bita, setur þá ofan á kökurnar og blandar saman 1 tsk pálmasykri við 1/2 tsk kanil og stráir því yfir smákökurnar.
Sett í ofninn á 180 með blástri í um það bil 10 mínútur og þá eru þær tilbúnar.
Þessi uppskrift gefur um 12 kökur.
Njótið í botn!!
Bjarney Vigdís er mikil áhugamanneskja um allt sem viðkemur heilsu, uppeldi, eldamennsku, tísku, förðun, handavinnu, fegrun heimilisins og öðru pjatti. Hún er menntaður förðunarfræðingur og er jafnframt framúrskarandi húsfreyja sem heldur einnig úti sinu eigin bloggi. Hún býr á vesturlandi í litlum bæ ásamt manni sínum og 6 börnum.