Þetta konfektkex hefur slegið margsinnis í gegn, enda er það bæði auðvelt og fljótlegt en bragðið bregst aldrei.
Geggjað súkkulaðikex sem hentar vel á kökuborðið í fallegri skál, saumaklúbbinn eða bara sem spari-laugardagsnammi.
INNIHALD
200 grömm suðusúkkulaði
150 grömm hvítt súkkulaði
1/2 pakki af Hobnob’s hafrakex (brotið niður litla bita)
100 grömm smjörlíki
AÐFERÐ
Bræðið suðusúkkulaðið og smjörlíkið. Blandið svo vel saman, brjótið upp hafrakexið í litla bita og setjið út í. Hrærið vel svo kexbitarnir eru þaktir í súkkulaði. Bræðið hvíta súkkulaðið. Takið um 3/4 af bráðnaða hvíta súkkulaðinu og blandið saman við kexblönduna. Þekið eldfast, grunnt form með bökunarpappír. Betra er að formið sé stærra en minna. Hellið súkkulaðikexblöndunni í formið og dreifið vel úr. Takið restina af hvíta súkkulaðinu og skreytið með því að hræra hvítu súkkulaði yfir efsta lagið með gaffli svo myndist nokkurskonar marmaramynstur. Að lokum er kexblandan sett í frysti í að minnsta kosti 90 mínútur.
Takið fram, brjótið upp í bita og berið fram strax.
Þetta bragðgóða súkkulaðikex geymist vel í kæli, en yfirleitt staldrar það stutt við enda ómótstæðilega gott!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.