Þessi er fyrir okkur sem elskum ferskan aspas og geitaost… og Whole Foods verslunina, en uppskriftin kemur frá þeim snillingum.
Ég fékk hreinlega vatn í munninn og ætla að gera þessa samloku við fyrsta tækifæri. Hún er auðveld í framkvæmd og auðvitað er flott að geta boðið upp á þessar samlokur í garðveislunni.
INNIHALD
Ferskur aspas, skorinn til helminga langsum (fæst t.d. brakandi ferskur í Costco)
Matskeið af extra virgin ólífu olíu
1/2 teskeið fínt salt
1/2 teskeið ferskur pipar (malaður)
1/2 bolli basil pestó (grænt)
16 sneiðar af grófu og girnilegu brauði (t.d. nýtt heilkornabrauð úr Björns bakaríi)
Tveir pakkar hráskinka
Tveir pakkar mjúkur geitaostur (fæst t.d. í Costco, ostabúðum eða Hagkaup)
AÐFERÐ
Hitaðu ofninn í 180 og bakaðu svo olíuborinn aspasinn, kryddaðan með salti og pipar, í um það bil 10-15 mínútur. Á meðan skaltu smyrja 8 sneiðar með pestó og hinar 8 með geitaosti. Settu hráskinku og aspas á sneiðarnar með geitaostinum og settu svo hina sneiðina yfir. Berðu ólífuolíu á brauðsneiðarnar utanverðar áður en þú hitar þær á stórri pönnu. Snúðu og taktu af þegar brauðið er orðið gyllt og stökkt og allt vel heitt. 6-8 mínútur alls.
Skerðu þær svo til helminga og berðu fram. Í hverjum skammti eru um 300 hitaeiningar. Fer óskaplega vel með ísköldu hvítvíni í góðum félagsskap.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.