Þessi réttur er tilvalinn sem fingramatur í partíið eða sem léttur forréttur í veisluna.
Ég er sérlega hrifin af þessari uppskrift vegna þess að hún uppfyllir allar mínar kröfur um góða uppskrift; hún er einföld, fljótleg í framkvæmd, bragðgóð og hráefnin eru ódýr! Annar plús við uppskriftina er að hún hentar líka þeim sem eru á paleo- og/eða lágkolvetnalífstíl. Það er því ekki eftir neinu að bíða – inn í eldhús!
INNIHALD
- 6 egg
- Hálft avocado, stappað
- 3 beikonsneiðar, skornar í smáa bita
- 3 matskeiðar af steikingarolíunni af beikoninu
- 1-2 matskeiðar af sterkri sósu (t.d. hot sauce, chillisósa eða tabasco sósa)
- Hálf til ein teskeið sjávarsalt, eftir smekk
- Paprikukrydd, til skrauts
AÐFERÐ
- settu eggin í pott og láttu þau sjóða þar til þau verða harðsoðin, láttu þau svo kólna, skerðu þau þá langsum og taktu ggjarauðuna úr – settu eggjarauðurnar í skál og geymdu til hliðar.
- raðaðu eggjahvítunum á disk.
- bættu steikingarolíunni, 2/3 hlutum af beikonbitunum, avocadoinu, sterku sósunni og sjávarsaltinu við eggjarauðurnar og hrærðu öllu vel saman.
- notaðu litla skeið til að setja blönduna ofan í eggjahvíturnar og stráðu restinni af beikonbitunum ofan á, kryddaðu síðan aðeins yfir með paprikukryddi.
Taraa… Tilbúið!
Sveindís Þórhallsdóttir útskrifaðist í vor með BS gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands en býr nú í fallegum bæ á Finnlandi þar sem hún leggur stund á mastersnám í íþrótta- og æfingasálfræði. Sveindís er jafnframt einkaþjálfari, heldur úti fjarþjálfun á vefsíðu sinni og hefur mikinn áhuga á hvers kyns hreyfingu og heilbrigði.
Pole fitness á hug hennar allan og fríkvöldunum er oftar en ekki varið í að teygja fyrir framan sjónvarpið. Hún á eitt stykki frábæran kærasta og dreymir um að bæta kisu á heimilið.