Ég er forfallinn pizzu fíkill en það vill svo skemmtilega til að það er hægt að klæða svo margt hollt í pítsa búning !
Pizzur væru ekkert svo fáránlega óhollar ef að það væri ekki fyrir brauðið, olíuna og ostinn.
Allt er samt gott í hófi og ekki ráðlegt að sleppa þessu alveg, heldur borða fjölbreytt og breyta oft til.
Heill poki af osti ofan á pítsu er mjög hitaeiningaríkt og kannski ekki hollt, það segir sig bara sjálft, þó að maður elski nú ostinn. Stundum get ég ekki annað en hlegið að sjálfri mér, fyrir að vera svona mikill úlfur.
Ég sá þessa pizzubáta einhverstaðar og varð bara að prufa. Þeir eru ótrúlega góðir og það er hægt að leika sér endanlaust með þá.
Ég var svo sem enginn brjálaður aðdáandi kúrbíts en þessir bátar eru núna réttur sem ég geri reglulega. Það er bæði hægt að skafa úr þeim og fylla með allskyns góðri hollustu eða bara toppa þá með góðgæti og njóta.
Innihald fyrir 1
- 1 kúrbítur
- Rifinn ostur
- Pepperóní (Passið ykkur að velja sykurlaust pepperóní)
- Pítsakrydd
- 1/2 Laukur
- 4 Sveppir
- Sweet mango chutney
- 4 sneiðar af beikoni
- Fetaostur
Aðferð 1
- Hitaðu ofninn á 180°
- Byrjar á því að skera kúrbítinn endilangt í tvennt (mér þykir gott að skera flata endann burt).
- Taktu eldhúspappír og dempaðu á báða helmingana til að ná burt sem mest af safanum. Settu bökunarpappír á plötu, ég notaði riffluðu grindina fyrir stuðning en þeir ættu alveg að geta staðið einir og sér á plötu.
- Kryddaðu með pítsakryddi.
- Stráðu osti ofaná, raðaðu pepperóní yfir ostinn og dreifðu nokkrum bitum af fetaosti yfir.
- Inn í ofn í c.a. 15 mín.
Aðferð 2
- Hitaðu ofninn á 180°
- Byrjar á því að skera kúrbítinn endilangt í tvennt.
- Þerraðu báða helmingana og skafaðu innihaldið úr bátunum í litla bita með teskeið svo að þeir myndi skálar.
- Settu innihaldið í skál og skerðu niður lauk og sveppi og blandaðu við kúrbíts bitana. Getur kryddað með pítsakryddi eða bara hverju sem þér þykir gott.
- Létt steiktu blönduna á miðlungs hita og skelltu henni svo í sigti svo að sem mest af safanum leki burt. Ég setti blönduna svo aftur í skálina og blandaði um 1 og 1/2 teskeið af sweet mango chutney útí.
- Settu 4 beikonsneiðar á pönnu og steiktu þar til þær eru alveg að verða eins og þér þykir þær góðar (ég vil þær vel krispí).
- Taktu beikonið af, þerraðu það og skerðu í litla bita.
- Fylltu bátana af blöndunni og raðaðu svo beikonbitum yfir og nokkrum teningum af fetaosti yfir.
- Skelltu þessu svo inní ofn í c.a. 15 mín eða þangað til að osturinn er farinn að brúnast.
Það er hægt að leika sér endanlaust með þetta svo um að gera að smakka sig áfram og leyfa bragðlaukum og skynsemi að ráða ferðinni.
Róberta Michelle Hall er fædd í Reykjavík en rekur rætur sínar til Bandaríkjanna eins og nafnið ber með sér. Hún á erfitt með að sitja kyrr og líður best með mörg járn í eldinum. Helstu áhugamál Róbertu eru líkamsrækt, sálarrækt og bakstur. Hún bakar allt milli himins og jarðar hvort sem það er óhollt eða hollt og lætur stundum aðra um að klára kökuna sem hún smakkar þó sjálf því gott skal það vera!