Ég er að fylgjast með þáttunum Master Chef og í einhverri seríunni bökuðu keppendur alvöru amerískt eplapæ.
Það er ekki oft sem maður fær þetta góðgæti í afmælum og veislum en ég persónulega tengi pæ við ameríkuna, eplapæ, bláberjapæ, pekanpæ og fl. en þrátt fyrir að hafa verið húsmóðir í 20 ár (vó!) þá hef ég aldrei gert eplapæ áður.
Eftir að hafa fylgst með þátttakendum í Master Chef gera eplapæ fékk ég óstjórnlega mikla löngun í að prófa og arkaði ég út í búð, keypti eplapæ form í Kokku. Skrapp í bónus og keypti hveiti, sykur, sítrónu, lyftiduft, epli, kanil, múskat og smjör settist fyrir frama google og fann mér eina uppskrift til að prófa.
Niðurstaðan var hrikalega gott eplapæ, sem heppnaðist vel og fengu mamma og múrarinn sem er að laga baðið hjá mér að vera tilraunadýr og voru þau lukkuleg með það.
Að sjálfsögðu tók ég myndi allan tímann sem ég var að baka og má sjá þær hér fyrir neðan en uppskriftin er fengin hér og er svohljóðandi.
Fylling
- 7 græn epli, skræld og skorin niður
- 1 bolli sykur
- 2 msk hveiti
- 2 msk kanill
- 1/4 tsk múskat
- 1 msk hýðið af sítrónu raspað fínt (ég þurfti að nota 1 1/2 sítrónu)
- 2 msk lint smjör (sem ég gleymdi reyndar að setja yfir)
Deigið
- 2 bollar hveiti
- 2/3 bollar smjör
- 1/2 tsk salt
- kalt vatn
Aðferð
- Skera niður eplin og blanda saman við sykur, hveiti, kanil, múskat og sítrónubörkin
- Hræra saman deigið með sleif og bæta köldi vatni út í smátt og smátt eða þar til þú getur farið að hnoða deigið (ég þurfti að nota 4 msk af köldu vatni)
- Skipta deiginu í tvennt.
- Fletja út helminginn og nota sem botn í eplakökuformið
- Setja fyllinguna út í og dreifa smjörinu hér og þar yfir
- Fletja hinn helminginn út og setja yfir fyllinguna
- Skera hér og þar í pæ-ið svo vökvinn geti gufað upp.
Ég smurði pæið með vatni því mig minnir að ég hafi séð það í Master Chef en mig rámar reyndar í að þeir hafi notað mjólk *pæl*
Setja pæið inn í ofni 10 mín á 215 gráðum Celcius og lækka svo niður í 180 gráður og baka í 45 mínútur.
Pæið er dýrlegt með rjóma eða ís og er einnig hægt að borða það kalt, en það er sætt á bragðið en örlítið súrt í leiðinni út af eplunum og sítrónunni.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.