Mér finnst ótrúlega gaman að taka uppskriftir og fiffa þær aðeins til svo að þær séu örlítið hollari því oftar ekki verða þær bara betri fyrir bragðið!
Það er um að gera að prófa sig áfram og skipta út ýmsum hráefnum í uppkriftum. Best er að gera það hægt og rólega til að venjast muninum en persónulega finn ég engan mun þegar að ég skipti svona út. Í þessari uppskrift tók ég út hvítt hveiti fyrir gróft spelt og hvítan sykur fyrir hrásykur.
Svo er hæglega hægt að minnka sykurskammt um 1/3 til helming því oft er alltof mikill sykur í uppskriftinni fyrir og þú finnur engan mun á því að minnka skammtinn aðeins.
Þessi kaka var allavega æðislega góð og alveg fullkomin á svona haustdögum. Toppurinn var svo rjóminn með pínulitlu krúttjarðaberjabitunum. Hún er ótrúlega fljótleg og dásamleg í alla staði!
INNIHALD
2 egg
2 dl kókospálmasykur eða hrásykur
1 dl gróft spelt
2 1/2 dl kókosmjöl
100 g smjör eða smjörlíki
4 matarepli
1 peli af rjóma og nokkur jarðaber
AÐFERÐ
- Hitið ofninn í 175°C
- Bræðið smjör og kælið aðeins niður
- Afhýðið epli og og kjarnhreinsið þau
- Skerið svo eplin í báta og leggjið í smurt form, miðlungsstórt
- Þeytið egg og sykur saman þar til létt, ljóst og loftkennt
- Hrærið smjörið saman við
- Hrærið síðan spelti og kókosmjöli saman við
- Hellið deiginu yfir eplin og bakið í ofni í u.þ.b. 25 mín. í miðjum ofni
- Þeytið rjóma, skerið jarðaber í litla bita og hrærið varlega útí rjómann
Verði ykkur að góðu!
Róberta Michelle Hall er fædd í Reykjavík en rekur rætur sínar til Bandaríkjanna eins og nafnið ber með sér. Hún á erfitt með að sitja kyrr og líður best með mörg járn í eldinum. Helstu áhugamál Róbertu eru líkamsrækt, sálarrækt og bakstur. Hún bakar allt milli himins og jarðar hvort sem það er óhollt eða hollt og lætur stundum aðra um að klára kökuna sem hún smakkar þó sjálf því gott skal það vera!