Einn af fyrstu réttum sem ég lærði að gera og hef alltaf gert mjög reglulega er “Sexy noodles”. Af hverju þær eru kallaðar það veit ég ekki en vinur minn sem kenndi mér að gera þær vildi örugglega setja sinn brag á pastað með þessu krassandi nafni.
Sexy noodles er í raun mjög svipaður klassíska réttinum “Pasta Arrabiata” og tekur einungis um 25 mínútur að gera.
Sexy Noodles fyrir 2:
- 4 meðalstórir tómatar
- 3-5 hvítlauksrif (fer eftir stærð og smekk)
- 1/2 laukur
- 1-2 msk. tómatpúrra
- rauðvínsskvetta (30-50 ml)
- Ólífuolía
Krydd:
- Ferskt eða þurrkað Basil eða Oregano
- grófur pipar
- gróft salt
- örlítið cayennepipar eða slatti af paprikudufti (fer eftir því hvort þú viljir sterkt eða fyllra bragð)
- Parmesanostur
Aðferð:
Byrjaðu á því að skella tómötunum í pott og sjóða þá (í heilu lagi) þeir eru tilbúnir þegar skinnið er losnað af þeim.
Á meðan má skera laukinn og hvítlaukinn og setja í pott með slatta af ólífuolíu við vægan hita. Fjarlægið skinn og stappið tómatana með gaffli eða töfrasprota ef hann er til, bætið tómötunum, tómatpúrru og rauðvíni út í pottinn og kryddið, látið malla við vægan hita á meðan suða kemur upp á vatni fyrir pastað. (ef þið eruð með ferskt pasta sem þarf bara 2-3 mínútna suðu, annað pasta þarf að setja fyrr í sjóðandi vatn þar sem það tekur 9-14 mínútur að sjóða, þá er gott að kveikja undir vatninu um leið og tómatar eru að sjóða.)
Ég kýs að nota ferskt Fettuccine sem þarf einungis að sjóða í 2-3 mínútur en allt pasta gengur (einn pakki er nóg fyrir tvo)
Borið fram með nýrifnum parmesanosti og góðu rauðvíni. Verði ykkur að góðu!
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.