Kanilsnúðar eru alveg æðislega góðir, fullkomið síðdegissnarl þegar maður vill hafa það gott. Ég hef aldrei smakkað eins mjúka snúða áður sem eru eins djúsí og bragðgóðir.
Deigið er létt, loftmikið og fyllingin gefur hæfilega sætt kanilbragð. Leyndarmálið sem gerir snúðana svona sérstaklega góða er klárlega smjörið sem sett er á deigið áður kanilsykrinum er dreift yfir. Það gerir bara allt svo bragðgott og gerir áferðina unaðslega.
Eftir að hafa prófað þessa uppskrift þá þarf ég aldrei að prófa aftur aðra kanilsnúða uppskrift, að mínu mati hef ég fundið hina fullkomnu snúða.
INNIHALD
Deig
7 g ger
1/2 bolli volgt vatn
1/2 bolli mjólk hituð að suðu
1/4 bolli sykur
80 g smjör
1 tsk salt
1 egg
2 bollar hveiti
AÐFERÐ
Byrjað er á að setja volgt vatn ásamt gerinu í litla skál og hrært smá til að allt gerið blotni. Mjólkin er svo sett í pott og hún hituð að suðu. Setjið sykur, smjör, salt og egg í stóra skál og hrærið saman, þegar mjólkin hefur kólnað svolítið bætið þá henni ofan í skálina. Bætið svo hveitinu og gerblöndunni ofan í stóru skálina. Hnoðið deigið saman þangað til allt hefur blandast vel. Látið deigið hefast í 1 – 1 1/2 klst eða þangað til deigið hefur tvöfaldast í stærð.
FYLLING
110 g smjör
3/4 bolli sykur
2 msk kanill
Þegar deigið hefur hefað sig dreifið þið 1 dl af hveiti á borðið, takið deigið úr skálinni og fletjið það út í um það bil 20×40 cm flöt. Bræðið smjörið og penslið því yfir allt deigið. Blandið saman sykri og kanil í skál og stráið svo yfir deigið. Rúllið svo upp deiginu frá 40 cm endanum í lengju og skerið hana svo í 12 – 15 bita.
Smyrjið frekar stórt eldfast mót með smjöri og raðið snúðunum ofan í formið, það má vera frekar rúmt á milli snúðanna því þeir eiga eftir að stækka. Stillið ofninn á 170°C. Leggið hreint viskustykki yfir formið og látið snúðana hefast í um það bil 30 mín. Setjið snúðana í ofninn og látið bakast í 45 mín eða þangað til þeir eru orðnir fallega gullnir á litinn.
GLASSÚR
4 msk smjör
2 bollar flórsykur
1 tsk vanilludropar
3 til 6 msk heitt vatn
Á meðan snúðarnir eru í ofninum er gott að útbúa glassúrinn. Það er gert með því að bræða smjörið í potti og bæta svo flórsykrinum útí og hrært vel. Bætið svo vanilludropunum útí ásamt heitu vatni. Best er að setja vatnið hægt út í og hræra vel eftir hverja skeið. Það sem við viljum er þykkt fljótandi krem sem auðvelt er að sprauta yfir snúðana. Glassúrinu er svo komið ofan í sprautupoka eða einfaldlega venjulegan poka og klippa svo lítið gat á eitt hornið. Sprautið svo glassúr yfir í því magni sem þið viljið.
NJÓTIÐ!
Linda fæddist þann 23. október árið 1988. Í dag er hún mamma í sambúð og með geysilegan áhuga á innanhúshönnun en áhuginn vaknaði þegar hún keypti fokhelt hús árið 2013. Verandi lífefnafræðingur hefur Linda líka mikinn áhuga á snyrtivörum og virkni þeirra. Linda er líka mikill bakari en hún bakar til að fá útrás fyrir sköpunargleðina og nýtur þess að taka fallegar myndir af afrakstrinum. Allar myndir í matarbloggfærslum eru því teknar af Lindu sjálfri og þú getur lesið meira af efni frá henni bæði hér undir notendanafninu og á mondlur.com