
Þessa góðu uppskrift fann ég í bókinni Heilsuréttir fjölskyldunnar. Hún rekur ættir sínar til Mexíkó og oft er notað nautahakk í hana en grænmetisútgáfan er alveg jafn klassísk og vinsæl í Mexíkó enda borða þau mikið af baunum þar suðurfrá.
Þó lýsingin á innihaldsefnum sé löng er líklegast að þú eigir að minnsta kosti helminginn af þeim fyrir í ísskápnum hjá þér. Þetta er ódýr réttur þegar allt kemur til alls og það er mjög gott að frysta hann og borða síðar. Þetta er einn af þessum réttum sem bragðast næstum því bara betur eftir að baunirnar hafa tekið bragðið frá grænmetinu vel í sig og blandast.
Chilli sin carne fyrir 4-6

2 dl nýrnabaunir úr dós
2-3 msk jómfrúarólífuolía
2-3 laukar skornir í þunnar sneiðar
3-4 hvítlauksrif söxuð eða kramin
1/2 -1 ferskt chilli
1 1/2 tsk kumminduft
1/4 tsk kanilduft
1/2 búnt fersk basilíka má sleppa
3-4 gulrætur
2 stk sellerístilkar, skornir fínt
1 stk rauð paprika
1 stk sæt kartafla
1 msk ferskur sítrónusafi
1 dós kókosmjólk
6-8 msk tómatmauk (paste)
1 tsk sjávarsalt
nýmalaður pipar
(maísbaunir ef vill)
Sósa:
Þykk AB-mjólk, einfaldlega setja ab-mjólk í kaffifilter og sía þannig og útkoman er þykk ABsósa.
Aðferð:
Hitið olíuna í potti á meðalháum hita og mýkið allan laukinn í um 10 mín. Bætið síðan við kryddi og hrærið vel. Grænmetið út í. Að lokum er sítrónusafa, kókosmjólk og tómatmauki blandað út í og látið réttinn malla í 15 mín. Bragðið svo með sjávarsalti og nýmöluðum svörtum pipar.

Til að hafa þetta enn betra er Avókadó límónu-salsa borið fram með:
1 stk avókadó (aðeins mjúkt)
1/2 rauðlaukur, fínt sax
1 stk lime, safinn
1 msk jómfrúarólífuolía
svolítið sjávarsalt og nýmalaður pipar og nokkrir dropar tabascosósa
1/4 búnt ferskt kóríander, saxað
Skerið avókadó í litla bita og blandið lauk og kóríander við, kreista sítrónusafa yfir + tabascodropum og krydda. Allt hrært vel saman í salsa.
Svo er þetta borið fram í skeljum en það er líka hægt að sleppa þeim og hafa bara meira grænmeti með, og eða brún hrísgrjón.

Guðbjörg er iþróttakennari frá Íþróttakennaraskóla Íslands. Hún hefur verið í líkamsræktarbransanum frá því árið 1989. Alltaf tilbúin að taka að sér krefjandi verkefni. Haldið ýmis þjálfaranámskeið fyrir þolfimikennara og einkaþjálfara auk þess að vera stundakennari við HR íþróttafræði. Undanfarin 19 ár hefur hún starfað með Agústu Johnson en nú hefur hún stofnað sitt eigið fyrirtæki, G fit heilsurækt og elskar að taka þátt í vellíðan fólks og upplifa árangur í líkamsrækt. Guðbjörg á skilningsríkan eiginmann og þrjú yndisleg börn.