Chili con carne er fullkomin fyrir köld og dimm janúarkvöldin. Þú getur útbúið vel af réttinum og hann verður jafnvel enn betri á morgun. Skelltu bara í frysti og hitaðu svo upp.
Bættu meira chili ef þú vilt hafa þetta sterkara, svo má líka skipta kjúklingabaunum út fyrir smjörbaunir ef maður vill. Þau sem borða ekki kjöt sleppa því að setja hakk í réttinn og nota þá bara meira af nýrnabaunum.
Við vitum að þetta lítur út fyrir að vera löng og flókin uppskrift en hún er það alls ekki. Þetta er svaðalega einfalt. Fer bara allt í einn pott. Þú verður að prófa!
INNIHALD
2 meðalstórir laukar
2 hvítlauksrif
2 meðalstórar gulrætur
2 sellerístönglar
2 rauðar paprikur
Ólífuolía
1 stór teskeið chili krydd
1 stór teskeið “ground cumin” (krydd, fæst allstaðar)
1 stór teskeið kanill
sjávarsalt
ferskur malaður pipar
400 g kjúklingabaunir úr dós
400 g nýrnabaunir úr dós
2 x 400 g tómatar úr dós
500 g gott nautahakk (helst keypt í sérverslun)
1 knippi af ferskum kóríander (fínt í Krónunni)
2 matskeiðar af balsamic ediki
400 g basmati hrísgrjón
500 g hrein jógúrt
230 g guacamole
1 lime
AÐFERÐ
Skrældu laukana og skerðu fínt, ásamt hvítlauk, gulrótum og sellerí. Saxaðu bara eins og vindurinn. Skerðu paprikurnar í tvennt og taktu innan úr þeim, – skerðu þær svo fínt líka.
Settu stærsta pottinn þinn á miðlungs hita og settu út í 2 msk af ólífuolíu ásamt skorna grænmetinu. Bættu við chili, cumin og kanil og slatta af pipar og salti eftir smekk. Hrærðu í þessu á 30 sekúndna fresti, eða þar til grænmetið er orðið mjúkt.
Bættu við baununum (sem þú lætur renna af fyrst ofan í vaskinn) og skelltu svo tómötunum út í. Því næst hakkið sem þú hrærir upp með sleif. Settu vatn í eina dósina af tómötunum og helltu út í. Þvínæst skaltu saxa stilkana af kóríandernum og bæta út í. Svo kemur balsamic edik og salt og pipar. Láttu suðuna koma upp og lækkaðu svo niður í þessu. Láttu malla í sirka klukkutíma og hrærðu af og til í matnum.
Þennan rétt er himneskt að bera fram með flöffí hrísgrjónum. Skiptu hrísgrjónum og chili réttinum í stórar skálar. Ef þig langar ekki í grjón þá er rétturinn alveg jafn góður með fersku, brakandi heitu brauði, nú eða bakaðri kartöflu með couscous.
Settu litla skál með jógúrt á borðið, guacamole, kóríander lauf og nokkrar lime sneiðar sem fólk getur fengið sér út á réttinn. Þessi réttur er fullkominn fyrir mánudagskvöld og þá er gott að fá sér kók eða vatn með en ef þú vilt hafa hann meira spari þá er ekki annað að gera en að setja eina rauðvín með á borðið. Allir glaðir!
Njótið!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.