Hver elskar ekki hnetusmjör ? Og rjómaost ? Og banana ? Ég geri það allavega ! Og hún er holl í þokkabót, allavega eins holl og svona góðar kökur gerast!
Ég uppfærði klassíska bananaköku uppskrift svo að hún væri í hollari kantinum.
Það er svo gaman að borða góða köku vitandi þess að maður er að næra líkamann sinn í leiðinni. Vissir þú að kanill er ótrúlega hollur og góður fyrir líkamann?
Sérstaklega góður fyrir þá sem þjást af sykursýki 2 og alla þá sem vilja halda blóðsykrinum í lagi. Svo hefur hann þann eiginleika að koma í staðinn fyrir sætu því hann platar líkamann til að halda að hann sé sætur. Vert er að hafa í huga að kaupa kanil frá Ceylon því hann hefur besta næringargildið.
Ef að bananarnir þínir eru að vera brúnir þá myndi ég nýta tækifærið og henda í eitt stykki köku því að brúnir og gamlir bananar eru einmitt fullkomnir í svona bakstur.
Þessi tekur dálítinn tíma en er algjörlega þess virði, gaman að mæta með eina svona í saumaklúbbinn eða bara hafa hana í sunnudagskaffinu eins og ég gerði.
INNIHALD
- 100 gr. hrásykur
- 2 stór egg
- 1 dl kókosolía
- 2 stórir bananar, stappaðir
- 1 dl möndlumjólk
- 4 tsk vanilludropar
- 230 gr. gróft spelt
- 1 tsk lyftiduft
- 1/2 tsk matarsódi
- 1/4 tsk múskat
- 1/2 tsk kanill
AÐFERÐ
- Hitið ofninn á 180°
- Þeytið saman hrásykur og egg mjög vel saman, svo að verði dálítið froðukennt
- Bætið bræddri kókosolíu útí og hrærið vel saman
- Stappið banana saman og bætið útí ásamt möndlumjólkinni
- Blandið þurrefnunum saman í aðra skál og blandið síðan útí eggjablönduna
- Blandið saman með sleikju
- Setjið deigið í tvö 22-24 cm vel smurð kökuform
- Bakið í 30-40 mín og losið svo úr formunum og látið kólna
KREM
- 150 gr rjómaostur
- 100 gr grískt jógúrt
- 3 msk ósætt hnetusmjör, helst gróft
- 2 msk agave eða hlynsíróp
- 3 bananar, fallegir og gulir
AÐFERÐ
- Hrærið rjómaost, grískt jógúrt, hnetusmjör og agave saman
- Leggjið kökubotnana saman með helmingnum af kreminu á milli og hinn helminginn smyrjiði ofan á kökuna
- Skerið bananana í frekar þykkar sneiðar og raðið ofan á kökuna
Þá er bara að hefjast handa og baka, skapa, mata og njóta!
Róberta Michelle Hall er fædd í Reykjavík en rekur rætur sínar til Bandaríkjanna eins og nafnið ber með sér. Hún á erfitt með að sitja kyrr og líður best með mörg járn í eldinum. Helstu áhugamál Róbertu eru líkamsrækt, sálarrækt og bakstur. Hún bakar allt milli himins og jarðar hvort sem það er óhollt eða hollt og lætur stundum aðra um að klára kökuna sem hún smakkar þó sjálf því gott skal það vera!