Nú er berjatýnslutíðin í hámarki og landsmenn flykkjast um sveitirnar og nærliggjandi héruð til að sópa upp þessari dásamlegu náttúruafurð.
Það er líka um að gera því matvæli gerast ekki ferskari, lífrænni eða villtari en berin sem við týnum beint af móður jörð. Hvort sem þú vilt týna bláber eða krækiber þá ertu í báðum tilfellum að ná þér í mikla ofurfæðu.
Svo er um að gera að nota þetta í eitthvað gotterí en sjálfri finnst mér fínt að frysta berin í poka og nota í smoothies, bökur eða annað gott yfir veturinn. Þegar þau eru fersk þá er það skyr með rjóma og berjum í flest mál.
Hér er svo uppskrift að bláberjapönnsum sem ég mæli með að gera um helgina. Það er ekkert betra en ljúfur helgarbröns!
- 2 dl hveiti/heilhveiti/ spelt (má vera hvaða hveiti sem er í raun! ég nota spelt)
- 1 msk hrásykur
- 1 tsk lyftiduft
- 1/4 teskeið salt
- 1 dl haframjöl
- 2 og hálfur dl mjólk
- 2 msk matarolía
- 1 tsk vanilludropar
- 1 egg
Bolli af bláberjum.
AÐFERÐ
Þeyta eggin fyrst, hræra öllum þurrefnum vel saman og bæta svo eggjunum, olíu og mjólk saman við. Settu bláberin út í síðast og hrærðu varlega.
Hægt er að nota hvort sem er pönnukökupönnu eða venjulega pönnu og nota svo sósusleif til að gera litlar pönnukökur (það er betra að hafa þær litlar). Þegar loftbólur hafa myndast á annari hlið pönnukökunnar er mál að snúa henni við og steikja í stutta stund þar til fallega gullbrúnn litur hefur myndast.
Berðu fram með smjöri, sýrópi, hnetusmjöri eða hverju sem þig lystir. Það er líka gott að setja þær í ristina daginn eftir en athugaðu að skammturinn er ekki stór svo ef þú átt von á mörgum er gott að tvö eða þrefalda uppskriftina.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.