Það er alltaf gaman að baka og nú er sá tími sem við prófum múffur í hollari kantinum. Þessar innihalda meðal annars trönuber og graskerjafræ en hvoru tveggja er stútfullt af góðum vítamínum.
INNIHALD
- 200 g heilhveiti
- 4 msk hveitiklíð
- 3 tsk lyftiduft
- 1/2 tsk matarsódi
- 75 g hrásykur
- rifinn börkur af 1 sítrónu
- 3 egg
- 200 ml (1 dós) ferskjuskyr
- 4 msk olía
- 75 g þurrkuð trönuber (eða rúsínur)
- 3 msk graskersfræ
AÐFERÐ
Ofninn hitaður í 175°C. Heilhveiti, hveitiklíði, lyftiefnum og hrásykri blandað saman í (hrærivélar)skál.
Sítrónuberki, eggjum, skyri og olíu hrært saman við og síðan trönuberjunum og mestöllu graskersfræinu. Deigið á að vera fremur þykkt en ekki þurrt. Sett í 12 pappírsklædd múffuform, afganginum af graskersfræjunum stráð yfir og bakað í miðjum ofni (eða rétt fyrir neðan miðju) í um 22 mínútur. (Tíminn er miðaður við að notað sé múffuform úr málmi eða silíkoni; ef eingöngu eru notuð pappírsform rennur deigið meira út og það styttir bökunartímann eitthvað.)
Njótið með kaffibolla, mjólkurglasi eða hvaða drykk sem þér finnst henta!
Guðbjörg er iþróttakennari frá Íþróttakennaraskóla Íslands. Hún hefur verið í líkamsræktarbransanum frá því árið 1989. Alltaf tilbúin að taka að sér krefjandi verkefni. Haldið ýmis þjálfaranámskeið fyrir þolfimikennara og einkaþjálfara auk þess að vera stundakennari við HR íþróttafræði. Undanfarin 19 ár hefur hún starfað með Agústu Johnson en nú hefur hún stofnað sitt eigið fyrirtæki, G fit heilsurækt og elskar að taka þátt í vellíðan fólks og upplifa árangur í líkamsrækt. Guðbjörg á skilningsríkan eiginmann og þrjú yndisleg börn.