Ef ég vil gleðja heimilisfólkið sérstaklega við kvöldverðarborðið þá er óbrigðult ráð að skella í heimalagaðar kjötbollur – enda ganga þær líka undir nafninu Hamingjubollur heimilisins.
Það var því rík ástæða fyrir því að ég valdi þennan rétt á kápu matreiðslubókar minnar Eldað af lífi og sál. Bollurnar klárast alltaf, þótt uppskriftin sé tvöfölduð.
Meðfylgjandi uppskrift er einföld og góð en tekur stundum einhverjum breytingum. Þegar nostrað hefur verið dálítið við hakkið, bætt í það góðum kryddjurtum, lauk og fleiru opnast nýr ,,kjötbolluheimur‘‘ og það verður gaman að prófa sig endalaust áfram með kryddin.
Kummin (cummin) sem notað er í þessari uppskrift er ákaflega bragðgott krydd sem gefur frábæran keim í marga kjötrétti. Það er notað í ýmsa karrírétti og er mikilvægt í matreiðslu Austurlanda, Suður-Ameríku og víðar. Kummin fæst malað jafnt sem ómalað(kumminfræ) og er hægt að nota það á hvorn veginn sem er í mörgum uppskriftum. Varast ber að rugla kummin saman við kúmen (caraway) eins og notað er í bakstur en það er gjörólíkt krydd. Uppskriftin er fyrir fjóra.
- 500g nautahakk
- 1 tsk. kummin, malað, en má líka nota kumminfræ
- 1 msk. fersk steinselja, söxuð
- ½ dl furuhnetur
- 2 hvítlauksrif, marin
- 1 msk. laukur, smátt niðurskorinn
- 1 egg
- 1 dl brauðmylsna
- salt og grófmalaður pipar
- 1 msk. ólífuolía
Kryddið nautahakkið með kummin, salti og pipar og bætið hvítlauk, lauk, steinselju og furuhnetum saman við. Hrærið síðan eggi og brauðmylsnu saman við og mótið bollur. Steikið í um 10 mínútur við miðlungshita í ólífuolíu á stórri pönnu. Snúið bollunum við á meðan á eldun stendur svo þær brúnist og steikist jafnt. Berið fram með góðu pasta eða spaghettíi og tómatsósan ljúffenga gegnir lykilhlutverki.
Tómatsósa:
- 1 msk. ólífuolía
- 1 laukur, smátt skorinn
- 3-4 hvítlauksrif, marin
- 1 dl basilíka, smátt skorin
- 1 tsk. sykur
- 1 dós niðursoðnir tómatar
- salt og pipar
Mýkið lauk og hvítlauk í ólífuolíu á pönnu við vægan hita í nokkrar mínútur. Bætið síðan niðursoðnum tómötum saman við og nokkru af safanum af þeim líka og sykri og látið malla í nokkra stund. Dreifið basilíkunni yfir rétt í lok suðutímans. Saltið síðan og piprið að smekk.
Rósa starfaði um árabil sem blaða- og fréttamaður lengst af hjá fréttastofu Stöðvar tvö og Bylgjunnar. Hún hefur skrifað um mat og matargerð í ýmis blöð og tímarit, þar af í rúman áratug fyrir Gestgjafann. Rósa gaf út sína fyrstu matreiðslubók, Eldað af lífi og sál, haustið 2009. Nú starfar Rósa við ritstörf hjá Bókafélaginu og er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.