Ó, almáttugur. Mér er eiginlega orða vant – þessi kaka. Guð hjálpi mér! Ég og afkvæmi mitt liggjum hérna emjandi af ofáti. En hætti ég að borða? Nei.
Ég skokka inn í eldhús hvað eftir annað til þess að ná mér í örlítinn bita. Bara smá flís í viðbót. Ég er auðvitað að ljúga þegar ég segi skokka. Ég skokka að sjálfsögðu ekki eitt né neitt. Ef ég held áfram að hakka þessa bölvuðu köku í mig má líklega rúlla mér milli staða fljótlega.
En snúum okkur að aðalmálinu. Uppskriftinni að bestu köku í heimi.
Slutty Brownies:
1 pakki af Betty Crocker Chocolate Chip Cookie Mix
1 pakki af Betty Crocker Chocolate Fudge Brownie Mix
2 pakkar af Oreokexi
Egg
Olía
Vatn
Mmm …
Fyrst skal búa til súkkulaðibitakökudeigið – bara samkvæmt fyrirmælum á kassanum (það er betra að bæta við auka matskeið af bæði vatni og olíu svo að deigið verði blautara). Setjið bökunarpappír í eldfast mót og fletjið deigið út í botninn á því.
Oreokexið fer þar ofan á.
Þegar búið er að raða kexinu er ágætt að taka sér smá pásu – hakka í sig afganginn af Oreoinu og taka myndir af fína naglalakkinu sínu.
Að lokinni pásu má hefjast handa við að hræra Browniemixið – einnig samkvæmt fyrirmælum á kassa.
Því er síðan hellt yfir Oreoið og smurt vel og vandlega yfir allt. Þessu er svo smellt inn í heitan ofn á 180° og látið bakast í ca. 25 mínútur.
Pása númer tvö. Það er bara svo fjári erfitt að baka.
Þegar kakan hefur loksins kólnað er henni kippt úr eldfasta mótinu. Svo má skera og borða. Borða, borða og borða.
Óóóó.
Fleiri orð um þessa köku eru óþörf.
Bakið hana og borðið.
Lífið er stutt.
Guðrún Veiga er mannfræðingur að mennt. Týpískt naut, kann vel að meta veraldleg gæði og þrjósk með eindæmum, fagurkeri og eyðslukló.
Naglalökk eru hennar helsti veikleiki og líkamsrækt stundar hún ekki en viðheldur brennslunni með óhóflegri kaffidrykkju.