Ég reyni að vera praktísk og nýta allt sem er að skemmast í ískápnum svo að ég þurfi nú ekki að sóa mat í ruslið. Bananar eru oftar en ekki að skemmast hjá mér og þá tek ég uppá því að skera þá í bita og frysta þá.
Algjör snilld er að setja frosna banana útí próteinsjeika, smoothies nú eða skella bara í bráðhollan bananaís ! Fyrir ísfíkla eins og mig þá er ekkert betra heldur er ís á virkum degi ! Hah ! Hvað þá með sósu !
Það er hægt að leika sér endanlaust með þennan ís og bæta t.d. við söxuðu dökku súkkulaði, goji berjum, söxuðum döðlum, setja hnetusmjör í ísinn sjálfan nú eða hvað sem þér dettur í hug. Þessi ís kom virkilega á óvart, hann verður klárlega gerður aftur og aftur.
Ætli þetta sé ekki það einfaldasta sem að ég hef nokkruntíma framkvæmt á ævinni, ég var skotstund að skella í þetta og jafnfljót að skutla þessu ofaní mig 😉
INNIHALD
Fyrir 2
- 2-3 Bananar skornir niður í bita og frystir
- 3-4 msk möndumjólk
- 1/2 tsk vanilludropar
- 2 mjúkar döðlur, ef þær eru ekki mjúkar þá skal bara leggja þær í bleyti í 10-15 mín.
SÓSA
- 1 og 1/2 msk gróft hnetusmjör
- 3-4 msk möndumjólk
AÐFERÐ
- 1. Frysta 2-3 banana að lágmarki 2 klst. Ef þú átt frosna banana fyrir í frystinum er gott að taka þá út í smá stund áður en þú ætlar að nota þá (athugaðu að afhýða banana áður en þú frystir).
- Betra er að byrja á sósunni, setja hnetusmjör og möndlumjólk í pott og hræra við lágan til miðlungs háan hita. Best er að finna út sjálf hversu mikla möndlumjólk þú vilt, fer allt eftir því hversu þykka þú vilt sósuna.
- Setja banana, möndumjólk, vanilludropa og döðlur í matvinnsluvél og blanda vel saman. Passaðu þig að setja ekki of mikið af möndlumjólk því þá missiru ís áferðina. Þarft örugglega að vera dálítið þolinmóð/ur og stoppa vélina og hræra í inná milli.
- Setja ísinn í fallega skál, hella sósunni yfir og njóta !
Þessi ís er nauðsynlegur þegar að nammiþörfin fer á kreik !
Róberta Michelle Hall er fædd í Reykjavík en rekur rætur sínar til Bandaríkjanna eins og nafnið ber með sér. Hún á erfitt með að sitja kyrr og líður best með mörg járn í eldinum. Helstu áhugamál Róbertu eru líkamsrækt, sálarrækt og bakstur. Hún bakar allt milli himins og jarðar hvort sem það er óhollt eða hollt og lætur stundum aðra um að klára kökuna sem hún smakkar þó sjálf því gott skal það vera!