Ostakökur eiga alltaf við, sérstaklega amerískar ostakökur með súkkulaði fudge. Þessi ostakaka er ein sú besta sem ég hef smakkað!
- 1/4 bolli saxaðar pekan hnetur
- 15 g dökkt súkkulaði
- 115 g mjúkt smjör
- 1 bollar sykur
- 2 stór egg
- 1/2 bolli hveiti
- 1 tsk vanilludropar
- 1/2 bolli saxað suðusúkkulaði
Ostakaka:
- 450 g mjúkur rjómaostur
- 1 bolli sykur
- 4 stór egg
- 1 tsk vanilludropar
Súkkulaði fudge:
- 340 g suðusúkkulaði
- 250 ml rjómi
Byrjað er á að smyrja hringlaga smelluform, 22 cm í þvermál. Ofninn er stilltur á 160°C. Pekan hnetur eru gróflega saxaðar og dreift í formið. Næst er botninn útbúinn með því að hræra saman smjör og sykur. Eggjunum er síðan bætt út í, einu í einu, hrært vel á milli. Dökka súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni og síðan sett út í eggjablönduna. Næst er hveitið sett út í og blandað vel við blönduna. Að lokum eru settir vanilludropar og saxað súkkulaði, hrært þangað til allt er vel blandað. Deigið er sett í formið og geymt.
Miðjulagið er útbúið með því að hræra rjómaostinn þangað til hann er orðinn mjúkur og loft meiri. Sykrinum er bætt út í og svo eggjunum, allt hrært vel saman. Vanilludropunum er bætt út í og hrært. Deiginu er hellt yfir botnlagið í forminu og sett í ofninn í 75 mín. Eftir það er kakan kæld niður í ísskáp í 6-8 tíma í forminu.
Súkkulaðihjúpurinn er búinn til með því að hita rjómann og súkkulaðið yfir vatnsbaði og hræra vel saman. Hjúpurinn er svo kældur aftur niður til þess að fá hann þykkfljótandi. Köld kakan er tekin úr forminu og sett á kökudisk. Þegar hjúpurinn er orðinn þykkfljótandi er honum hellt yfir kökuna. Ég valdi að skreyta kökuna með jarðaberjum en það er um að gera að láta hugmyndaflugið ráða.
Eins og ég sagði áðan þá hef ég hreinlega ekki smakkað betri köku og þá er mikið sagt, það er klárlega eitthvað ávanabindandi í henni!
Linda fæddist þann 23. október árið 1988. Í dag er hún mamma í sambúð og með geysilegan áhuga á innanhúshönnun en áhuginn vaknaði þegar hún keypti fokhelt hús árið 2013. Verandi lífefnafræðingur hefur Linda líka mikinn áhuga á snyrtivörum og virkni þeirra. Linda er líka mikill bakari en hún bakar til að fá útrás fyrir sköpunargleðina og nýtur þess að taka fallegar myndir af afrakstrinum. Allar myndir í matarbloggfærslum eru því teknar af Lindu sjálfri og þú getur lesið meira af efni frá henni bæði hér undir notendanafninu og á mondlur.com