Eins og lesendur Pjattsins hafa kannski tekið eftir erum við ólmar í amerískar pönnukökur og þreytumst ekki á að finna skemmtilegar uppskriftir undir þeirri forskrift.
Þessi kemur frá stelpunum hjá Yndisauka en hér er um að ræða heilsusamlegar pönnsur, stútfullar af styrkjandi spínati. Ljómandi gott að bera fram með hrærðum eggjum og laxi, nú eða kotasælu eins og sýnt er á myndinni.
Frábært fyrir ræktina!
INNIHALD
440 gr. hveiti/heilhveiti/spelt (ath! það er gott að bæta við 1 dl af vatni ef heilhveiti eða spelt er notað)
3 tsk. lyftiduft
3 msk. sykur/hrásykur
1 msk. malað cummin (má sleppa)
2 tsk. salt
3 stk. egg
2.5 dl. AB-mjólk
150 gr. spínat
3 dl. vatn
50 gr. brætt smjör
AÐFERÐ
Sigtið saman öll þurrefnin. Hrærið eggin, AB-mjólkina og smjörið saman. Setjið vatnið í pott og saltið aðeins og látið suðuna koma upp. Setjið spínatið í pottinn og lokið honum og bíðið í 1 mín., ekki lengur. Hellið vatninu og spínatinu í mixer og látið vélina vinna í u.þ.b. ½ mín. eða þar til úr verður fallega grænn safi. Blandið safanum ásamt AB-mjólkinn og eggjunum saman við þurrefnin.
Steikið síðan litlar pönnukökur á meðalheitri pönnu. Þegar loftbólur eru farnar að myndast í deiginu er tímabært að snúa kökunum við.
Þetta er frekar stór uppskrift u.þ.b. 30 pönnukökur
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.