Þessar fallegu og undur góðu snittur er gaman að eiga á bakka inni í kæli. Í þetta góðgæti getur hann teygt sig í morgunsárinu með rjúkandi kaffibolla í hönd meðan myrkrið dvelur úti.
Þær eru meinhollar og tilvalin morgunbiti um helgar. Það verður að gera sér dagamun í desember og njóta í botn. Þetta eru lekkerar snittur, hollar og hressandi fyrir hjartastöðina.
Taktu nú til 4 sólkjarnabrauðsneiðar og smyrðu létt. Leggðu á sneið af léttu kjúklingaáleggi, svo bút af fersku grænu salati á hverja sneið. Því næst eru það jarðarber, skorin í litla bita, þá agúrkur, kokteiltómatar, örlitlir sítrónubitar, egg og í restina erum við með smá svartan pipar.
Það er svo kærkomið að eiga bæði hollustu og passlega jólasnittu í ísskápnum nú á þessum yndislega tíma sem framundan er.
Ég ætla nefninlega að sneiða fram hjá óhollustunni þessa aðventuna og vera á kafi í fæðu sem ég græði á frá toppi til táar.
Dóra elskar að föndra við snittugerð en matur hefur alltaf haft mikil áhrif á hennar líf. Svo mikil að Dóra byrjar flesta morgna á að hugsa um hvað eigi að vera gott í kvöldmatinn. Hún býr á Seltjarnarnesi, á tvær æðislegar stelpur og sætasta golfara í heimi (að ólöstuðum okkar). Dóra lærði til lyfjatæknis árið 2001 en áhugamál hennar snúast um allt sem tengist mat, hreyfingu, dansi og útivist.