Að ganga í hjónaband er eitt af þessum fyrirbærum sem flestir jarðarbúar líta á sem sjálfsagðan hlut og rúmlega það. Hvarvetna í heiminum eru ógiftir menn og konur, sem eru kominn á miðjan aldur, litin hornauga ef þau eru ekki “genginn út” eins og það kallast. Af einhverjum ástæðum, sem við ætlum að skoða aðeins í þessari grein, er leynt eða ljóst ætlast til þess að við finnum hentugan maka og göngum svo í hjónaband.
Í menningarheimi okkar vesturlandabúa er monogamy, eða einkvæni viðurkennda normið. Monogamy er fræðiheitið yfir samband tveggja einstaklinga þar sem aðeins þau fá að njóta kynlífs hvert með öðru og minnstu undantekningar frá þeim sáttmála eru synd, skömm og skilnaðarorsök. Polygamy og polygyni eru orð yfir fjölkvæni, eða mann/konu sem á í hjónabandi/sambandi við fleiri aðila á sama tíma.
Þau sterkustu sigra
Að ganga í hjónaband, hvort sem það er við einn eða fleiri einstaklinga, er mannskepnunni ekki eðlislægt frekar en að bursta tennurnar, fara í klippingu eða skreyta jólatré. Það er hinsvegar ein af fyrstu félagslegu uppfinningum okkar og tengslamyndun á milli tveggja eða fleiri einstaklinga, í formi hjónabands eða einhverskonar samkomulags, átti sér fyrst stað þegar við vorum rétt að komast af apastiginu.
Elstu kerfin sem við mynduðum voru nokkurnveginn á þá leið að ráðríkur eldri karl reyndi að komast yfir sem flestar kerlur í einu, til að tryggja að gen hans bærust áfram með afkvæmunum inn í framtíðina. Með því að hafa margar í takinu jók hann möguleika sína á því að eignast afkvæmi þar sem í það minnsta ein þeirra ætti að vera í mökunarstuði þegar svo bar undir. Á sama tíma reyndu kerlur að hafa mök við yngri, sterkari og frjósamari karla til að tryggja sér hraust og hress afkvæmi.
Í þessu gamla kerfi var ekkert sem líkist viðurkennda norminu í dag, sem er einn karl með einni kerlu eða ein kerla með einum karli, né heldur fjölkvæni, heldur snerist þetta einfaldlega um hver var fljótust eða fljótastur að „skella í vél” með heppilegum genabera og hver gerði það oftast.
Alltaf til í tuskið
Uppfinning hjónabandsins hefði örugglega aldrei átt sér stað ef ákveðnar líffræðilegar breytingar hefðu ekki gerst í líkömum kvenna. Tíðahringur flestra kven spendýra er þannig að hún er aðeins til að hafa mök þegar hún er “breima”, sem takmarkar getnaðarmöguleika karldýranna niður á þetta ákveðna tímabil og þar sem þeir eru alltaf í stuði, verða þeir að hafa sig alla við til að komast yfir skvísuna. Við sjáum þetta meðal annars á meðal katta.
Þegar læðan er breima gefur hún frá sér ægileg vein og gól (reyndar gera fressarnir það líka) og allir fressarnir í hverfinu sem vettlingi geta valdið, mæta á svæðið til að sjá hvort þeim veitist sá heiður að fá að fara upp á hana. Hún spígsporar um og velur sér þann sem henni líst best á (oftast fer hún eftir því hver er með flottasta feldinn) og í kjölfarið fær sigurvegarinn að fara “upp á hana”, (þó er einnig algengt að nokkrir sigurvegarar fái að máta það fer eftir því hverslags kattardýr á í hlut).
Það sem aðgreinir okkur mannskepnurnar frá þessu kynferðislega hegðunarmunstri annara spendýra er einna helst það að við erum “breima” í tæplega einn mánuð, eða allann tímann fyrir utan tímabilið þegar við förum á blæðingar. Þegar konur eru með egglos verða þær reyndar aðeins meira breima og skemmtilegar kannanir hafa sýnt fram á það að konur eru oftar en ekki léttklæddar og reyna að láta skína í bert þegar þær eru með egglos.
Svíar gerðu könnun inni á vinsælum skemmtistað í Stokkhólmi sem fór fram á þá leið að ungar konur voru ljósmyndaðar og síðan spurðar hvar í tíðahringnum þær væru staddar. Það kom á daginn að þær sem voru í rúllukragabolum, með síðar ermar og í víðum buxum voru yfirleitt á túr eða alveg að fara að byrja, á meðan skvísur í berbaksbolum og mini-pilsum voru staddar á hápunkti egglossins.
Giftast bræðrum
Flest menningarsamfélög líta á einkvæni sem eina af sterkustu undirstöðum farsæls þjóðfélags og um leið gera þau mikinn greinarmun á ást og ástríðum annars vegar og hjónabandi hins vegar. Eina undantekningin frá þessu var Nayar samfélagið sem hélt til á Malabar ströndum Indlands.
Þar til í upphafi nítjándu aldar þurftu ungar stúlkur af Nayar þjóðflokki að ganga undir helgiathöfn um leið og þær byrjðu á blæðingum. Helgiathöfnin var á þá leið að ungir karlmenn höfðu við þær samfarir og seinna urðu þeir hugsanlega elskhugar stúlknanna. Ef stúlkurnar áttu með þeim börn voru þær, ásamt börnunum, skuldbundar til að syrgja manninn ef hann lét lífið, en fyrir utan þá smámuni voru engar skuldbindingar hvorki frá hans hendi til stúlkunnar né öfugt.

Algjör andstæða Naya fólksins er Nyinbar ættbálkurinn í Nepal. Þar eru iðkuð margskonar hjónabönd; fjölkvæni þar sem einn karl átti margar konur, einkvæni og svo polyandri, eða ein kona sem gengur að eiga nokkra karla, oftast bræður, og í sumum tilfellum geta þeir tekið sér auka konu. Polyandri er algengasta fyrirkomulagið hjá Nyinbar fólki og um leið aðal stolt þeirra og sérkenni sem ættbálks.
Grín gert að karlmönnum á lausu
Hjónaband leysir ýmis vandamál sem eru einstæð hjá okkur mannfólki. Til dæmis eru mannabörn miklu lengur að komast á legg en afkæmi langflestra spendýra og það ferli gengur betur fyrir sig ef maður og kona eru samtaka um uppeldið og fæðuöflun í þau ár sem það tekur krílið að verða sjálfbjarga.
Þegar við vorum enn í veiðisamfélögum þurftu konan og maðurinn oft að standast langann aðskilnað sem gat oft staðið mánuðum saman, en samt sem áður voru allir hvattir til að ganga í hjónaband og stundum gat hvatningin gengið fram úr hófi.
Til dæmis voru ungir menn á eyjunni Spörtu dregnir í kringum altarið og hafðir að alhlægi af hópi ungra ógiftra kvenna, eða þá að þeir voru píndir til að hlaupa naktir um skóga og stræti um hávetur, syngjandi lög sem drógu dám að einhleypings ástandi þeirra.
Smelltu hér til að lesa grein um fordóma gegn einhleypum í dag
Fríkum út á valkostunum
Í dag sækja um helmingur giftra um skilnað innan fimm ára. Flestum virðist þykja erfitt að sættast við þá tilhugsun að samningurinn bindi mann við einn einstakling það sem eftir er ævinnar.
Kannski er það vegna þess að í dag er stöðugt áreiti á okkur um alla valkostina sem okkur bjóðast, hvort sem það á við um að fara til Spánar eða Grikklands, verða flugfreyja eða lögfræðingur, nota B eða C skálar eða velja sér félaga á Tinder. Það er alltaf eitthvað spennandi að gerast hinum megin við girðinguna og þar er erfitt að mega ekki smakka, sérstaklega þegar það er kominn þreyta í sambandið og róman-tíkin farinn að spangóla af leiðindum.
Einstaka samfélög hafa komið sér upp „normi” sem er almennt viðurkennt án þess að það sé talað um það í blöðunum. Frakkar eru á meðal þeirra, en í Frakklandi er minna gert mikið veður út af því að kona eða karl, sér í lagi af efri stéttum, taki sér elskhuga eftir margra ára hjónaband. Krakkarnir eru þá flestir orðnir nógu gamlir til að sjá um sig sjálfir og fyrirtækið; hjónabandið, rekur sig að mestu leiti sjálft.
Dæmi um þetta viðurkennda athæfi er frönsk bílaauglýsing sem sýnir miðaldra eiginkonu og eiginmann mætast á rauðu ljósi. Við sjáum konuna leggja farþegasætið niður og fela með því ungann og vöðvastæltann mann sem situr við hlið hennar. Þegar bíllinn hennar rennur upp að bíl eiginmannsins tala þau eitthvað um skyrtu sem á að fara í hreinsun og halda svo sína leið. Myndavélin fer að bíl eiginmannsins sem grípur í farþegasætið á sínum bíl og upp kemur elskhuginn, sem er líka, ungur, fallegur karlmaður…
Kynferðisleg siðaskipti, allir halda framhjá
Kynferðisleg siðaskipti eru ekki ný af nálinni. Til dæmis urðu mikil siðaskipti í Englandi þegar Viktoría drottining réði ríkjum. Kerlingin sú var ægileg þurrkunta og tepra sem bannaði allt á milli himins og jarðar. Bönn hennar gengu svo langt að konur máttu ekki hvorki láta sjást í ökkla né bringu og þuftu því að vera dúðaðar frá toppi til táar í múnderingar sem gátu ekki á nokkurn hátt vakið kynlöngun.
Siðaskiptin á síðustu öld hófust á áberandi hátt, snemma á fimmta áratugnum og þróunin hefur verið á alla kanta síðan, okkur til bæði ánægju og ama. Það sem setur strik í reikninginn, og er alltaf að koma betur og betur í ljós, er að ekki nema helmingur mannfólks virðist vera þannig gerður að hann sætti sig við aðeins einn bólfélaga á heilli ævi, eða með öðrum orðum, einkvæni… þó svo að konurnar séu “breima” í tæpan mánuð í senn og geti með reglubundnu kynlífi verið óléttar ár eftir ár ef því er að skipta.
Leigubílstýra í Reykjavík sagði greinarhöfundi frá því í nýlegu viðtali að henni hefði komið ótrúlega á óvart hversu duglegir Reykvíkingar, bæði konur og karlar, væru í því að halda framhjá.
Hún sagði að um hverja einustu helgi kæmu í bílinn til hennar ekki bara einn eða tveir einstaklingar sem væru að taka hliðarspor, heldur væri það stundum helmingur farþeganna – sem henni þótti mjög sjokkerandi. Skiljanlega. Fólk þarf greinilega eitthvað að finna út úr þessu af þeirri einföldu ástæðu að feluleikur og óheiðarleiki í nánum samböndum er meðal alverstu synda.

Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.