Eftir að hafa lesið grein eftir sampjattrófu mína um það að láta börnin okkar gráta sig í svefn ákvað ég að miðla af minni reynslu varðandi eina alíslenska uppeldisvenju sem virðist varða við hegningarlög að fara ekki eftir, en það er að láta börnin sofa úti í vagni.
Fyrir það fyrsta þá virðast íslenskar mæður vera í miklum meirihluta í heiminum þegar kemur að því að láta börnin sofa úti í vagni, og það í hvaða veðri sem er. Börnin eiga að sofa betur, og hvort sem rignir, blæs eða snjóar, þá er blessuðum elskunum pakkað ofan í vagn og út að sofa. Ég á eins árs gamlann son, og ég er ekkert alltof hrifin af því að láta hann sofa úti í vagni, hann reyndar gerir það hjá dagmömmunni, en þegar hann er heima þá tekur hann bara sína lúra í rúminu sínu.
Aðalástæðan fyrir því að ég vil helst ekki láta hann sofa úti í vagninum er að þegar ég var ólétt las ég frétt um það að súrefni í vögnunum getur farið alveg niður í 30% og þá er kannski ekki skrýtið að þau sofi lengi greyin…
En allavega. Ég hef því miður ekki mætt miklum skilningi á þessari hegðan minni að setja barnið mitt ekki út í vagn. Í besta falli fæ ég bros og “þú náttúrulega ræður þessu, þetta er þitt barn” en stundum eru viðbrögðin þannig að mér finnst eins og ég hafi framið helgispjöll á hæsta kaliberi og ég er bara álitin skrýtin!
Ég brosi bara á móti og held áfram að leyfa barninu mínu að lúra inni í rúmi, enda hefur hann það bara gott þar 🙂
Hrafnhildur, eða Krummi, er mamma, förðunarfræðingur, leikkona, kærasta, systir, dóttir, handverkskona og listakona svo fátt eitt sé nefnt. Ung flutti hún frá Sauðárkróki til Reykjavíkur þar sem hún lærði förðunarfræði en seinna flutti hún til Alabama, USA þar sem hún lærði leiklist. Eftir nokkur ár í Bandaríkjunum lá leið hennar aftur til Sauðárkróks og hún er því rödd landsbyggðarinnar á meðan pjattrófa. Hrafnhildur er fædd 21. febrúar árið 1980 og er fiskur.