Þegar ég var ófrísk að yngri stelpunni minni gerðist ég meðlimur í hópi með öðrum tilvonandi mæðrum sem áttu von á sér í sama mánuði og ég.
Við vorum allar settar í Maí 2013 en það þýðir að börnin okkar eru nú að nálgast “the terrible two’s” eða skelfilega tveggja ára aldurinn.
Ég fékk smá smjörþef af því sem koma skal fyrir nokkrum dögum þar sem dóttir mín eyddi um það bil hálftíma, liggjandi á gólfinu, rúllandi sér fram og til baka, útí horn og á mitt gólf og bara allstaðar.
Bara vegna þess að hún fékk ekki að borða skyrið sitt beint uppúr dollunni.
Ég deildi þessu með kynsystrum mínum til að fá smá vorkun og þær höfðu margar hverjar svipaða sögu að segja. Mér leið ögn betur að vita að ég væri ekki sú eina sem væri að lenda í óskiljanlegum samningsviðræðum við barnið mitt sem er ekki einu sinni orðið tveggja ára gamalt. Mér til gamans, og vonandi ykkur, þá bað ég þær um að deila með mér enn fleiri sögum um ástæður þess að börnin þeirra hafa tekið tryllingsleg frekjuköst.
Ástæðurnar eru mismunandi en allar vel skiljanlegar, miðað við að maður er bara 18 mánaða!
-Að fá ekki að sitja í fanginu á mér meðan ég sat á klósettinu,
-Hálftíma kast yfir að mega ekki borða kokteilsósuna með skeið upp úr dollunni… annað eins fyrir að mega ekki drekka úr pizzusósuflöskunni!
-Kast yfir því að mega ekki naga aloavera plöntuna.
-Brjálaðist við pabba sinn og elti hann út um allt gargandi og öskrandi yfir að mega ekki fá annan sopa af bjórnum… sem, nota bene, pabbi hans lagði frá sér í hugsunarleysi. Sá stutti komst í hann og fékk sé sopa sjálfur.
-Trylltist því ég henti skítableyjunni.
-Trylltist því ég tók hann þegar hann var upptekin við að dansa… í pissupollinum sínum!
– Grenju-öskur-táraflóð í þrjú korter, horflóð og ekka sog því ipadinn varð batteríslaus!
-Aria vaknaði kl þrjú í nótt, hljóp og sótti skóna sína og vildi fara út, tók svo grenjukast í góðan hálftíma!
-Fór í fýlukast og öskraði á okkur foreldrana þvi við máttum ekki setjast í sófann.. bara hún mátti sitja í honum.
-Gargar NEI á mig við matarborðið. Ég mátti allt í einu ekki borða sjálf, ég átti að borða matinn sem hún rétti mér af sínum diski. Einmitt.
-Tók rosalegt kast um daginn því hann fékk bara að hafa eina skeið til að borða hafragrautinn en ekki tvær.
-Hún á sinn eigin stól og það má enginn sitja í honum, þá verður hún mjög reið.
-Minn tók kast um daginn því hann fékk ekki að setja rassahitamælinn í munninn.
-Mín tók kast í gær því pabbi hennar faldi sig ekki þar sem hún vildi (voru í feluleik).
-Brjáluð af því hún komst ekki í allt of litla skó.
-Hálftíma kast af því hann vildi ekki skeið í jógúrtið, bara rör.
-Brjálaðist yfir því að mega ekki henda bleyju i klósettið.
-Bilaðist af því hann fékk ekki ad drekka beint úr tómatsósuflöskunni.
-Skottan hoppar og öskrar því dúkkan gerir ekki eins og hún skipar henni.
-Er að kafna úr grenji inni í herbergi núna. Orsök óþekkt en talin vera vegna þess að hann mátti ekki nota McQueen peysuna hans stóra bróður til að klára þurrka upp pissið sitt. Guð forði mér frá því að sá stóri komist að því hvað litli bró var að gera.
-Brjálast yfir að geta ekki farið sjálf í strigaskóna sína með skóhorni heimilisins (sem er jafnstórt og hún sjálf).
-Það fóru heilar fimmtán mínútur í að öskra, gráta og henda öllu sem hún sá í kring um sig af því ég stakk óvart rörinu á kókómjólkinni ALVEG ofaní fernuna…!!!
-Það var líka alveg glatað að komast ekki sjálf yfir háann útidyraþröskuldinn og enn verra þegar henni var svo hjálpað inn úr rokinu og hún hékk gargandi á útidyrahurðinni til að komast aftur út til að labba aftur inn.
-Þetta byrjaði með því að ég settist á rangan stað í sófann, í framhaldi af því, þegar dramað var loksins búið, þá vogaði ég mér að loka augunum í smá stund, (er með sár í auganu). Nei nei drengurinn bilaðist! Ég átti að horfa á hann meðan hann væri á horfa á sjónvarpið.
-Stelpan mín er endalaust að koma með stígvél til mín og heimta að ég fari í það. Það væri ekki svo vonlaus bón nema af því að það er af 11 ára gamalli systur hennar! Alltaf kemur hún með hennar stígvél og tjúllast ef ég fer ekki í það! Kemur fyrst með eitt og skipar mér ofaní það og ef ég neita verður hún gjörsamlega brjáluð! Ef ég skila því inní forstofu hendir hún sér á gólfið og grenjar… Ég prófaði um daginn að troða mér hálfa leiðina ofan í fyrra stígvélið. Hún fylgdist grannt með á meðan og þegar ég var komin ofan í það hljóp hún og sótti hitt.
Ég tróð mér í það líka, þá brosti hún mjög sátt og fór svo bara að leika sér… akkúrat enginn tilgangur! Ég hélt hún væri amk að reyna að plata mig út að leika!!!
Krabbastelpan Eva Rós er fædd árið 1989, á tvö börn og góðan mann. Eva er mikill áhugamaður um hverskyns gamanmál en einnig uppeldi, ferðalög, heilsu, líkamsrækt, vín, matreiðslu, veisluhöld, kokteilagerð og góða þjónustu. Mottó Evu í lífinu er einfalt: Hver er sinnar gæfu smiður