Við dóttir mín erum góðar vinkonur og tölum mikið saman, meðal annars um krakkana í skólanum og félagslífið hennar þar.
Um daginn kvartaði hún undan vinkonu sinni sem henni fannst sýna aðeins of mikla frekju:
“Og ef hún fær ekki það sem hún vill þá bara fer hún í fýlu og talar ekkert við mann.”
Ég útskýrði fyrir henni að fyrirbærið hefði nafn. Þessi aðferð væri notuð til að ná yfirhöndinni með einangrun og útskúfun og kallaðist þagnarstjórnun.
Sú litla varð mjög hugsi. Vappaði inn í herbergið sitt og fór augljóslega undir feld eins og Þorgeir Ljósvetningagoði þegar hún pældi þetta fram og aftur.
Næsta dag kemur hún heim úr skólanum með tilkynningu.
“Nú sé ég mikið fleiri nota þagnarstjórnun,” sagði hún upplýst og á sama tíma var henni mjög létt.
Hún sagðist hafa kennt fleiri krökkum orðið, þau hefðu orðið mjög fegin að læra það og í kjölfarið rætt það sín á milli.
Svo fór hún með einskonar rapport fyrir mig þar sem hún útskýrði hverjir notuðu þagnarstjórnun mest og hvernig. Sumir hefðu meira úthald en aðrir en mestu skipti þó að með því að læra orðið ‘þagnarstjórnun’ skildi hún hvað var verið að gera og þetta hætti að virka á hana.
“Nú er mér bara alveg sama. Hún getur bara látið svona ef hún vill, ég ætla ekki að láta asnalega þagnarstjórnun ráða yfir mér”.
Mér fannst þetta sjálfri alveg frábært því ég átti ekki von á að útskýringin á þessu eina litla orði hefði svona mikil áhrif. Staðreyndin er sú að börn vilja frekar rífast og lenda í áflogum en að láta útskúfa sig og einangra.
Ekkert barn (og bara enginn svona yfir höfuð) ætti að þurfa að verða fyrir þessari gerð af andlegu ofbeldi, hvorki heima né á skólalóðinni.
Og ekkert barn ætti að þurfa að setja sig í þá stöðu að þurfa að beygja sig undir og ‘þóknast’ fúlum félögum sínum til að endurheimta vináttuna.
Ég skora á þig að spjalla um þetta við barnið þitt.
Það bæði kom mér á óvart og gladdi mig mjög að sjá hvað þetta hafði jákvæð áhrif á stelpuna mína og að hún hafi fundið hjá sér þörf til að útskýra þetta fyrir vinum sínum, sem jafnframt tóku skýringunni feginsamlega, fannst mér enn betra.
Enga fýlu takk — og enga þagnarstjórnun.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.