Börnin eru misjöfn eins og þau eru nú mörg. Það er þó eitt sem mér finnst því miður vera áberandi meðal sumra krakka í dag en það er vanþakklæti, óvirðing og græðgi.
Margir krakkar fá svo rosalega mikið af dóti í dag án þess að hafa unnið fyrir því og finnst það bara sjálfsagt að fá nýtt dót með heim í hvert sinn sem er komið heim úr búðinni eða það er suðað um það næstum allan tímann.
Það er í rauninni ekkert að því að geta gefið barninu sínu allt sem það þarf og vill, ef fólk hefur tök á því, en það er líka nauðsynlegt að kenna börnum að sýna þakklæti, að kunna að bera virðingu fyrir því sem það þiggur og jú nægjusemi. Sýndu þeim líka muninn á nauðsyn og munaði, það er nefninlega stór munur þarna á milli.
Hérna eru nokkur trikk til þess að koma þessum góðu gömlu gildum í hugarfarið hjá barninu þínu:
Ein tegund af nammi
Þegar verið er að kaupa sælgæti fyrir helgina skaltu nægja að leyfa því að velja bara eina eða tvær tegundir. Ef það er úr nammibar að taka bara 1-2 stykki af hverri tegund. Þetta er alveg nóg fyrir krakka sem eru yngri en 8 ára, svo er hægt að auka eftir því sem þau verða eldri.
Það er ekki tekið á móti gjöf nema þökkum sé komið til viðkomandi sem gaf.
Safna
Láttu barnið safna sér fyrir dótinu sem það langar í.
Leyfðu því að fara út með ruslið, þurrka af, reita arfann í garðinum, hjálpa til með uppþvottavélina ofl.
Það fær svo greitt smá aur fyrir verkefnið í kannski annað hvert skipti.
Þetta kennir börnum aðeins um gildi peninga og það fer e.t.v. betur með dótið sem það vann svo hart að safna sér fyrir.
Láttu barnið samt líka hjálpa þér án þess að fá greitt fyrir – en það er bara hrein hjálpsemi.
Skammtaðu dót
Eldri dóttir mín átti t.d. alltof mikið af Barbie dóti, við ákváðum að velja það sem hún vildi eiga en hitt gáfum við einhverjum sem hafði minna. Nægjusemi er hér höfð að leiðarljósi.
Á þessu heimili er stanslaust suðað um að fá nýtt þetta og nýtt hitt. Síðast var óskað eftir nýjum litum og skólatösku fyrir haustið en það var sko alls ekki þörf á því. Reglan er sú að það er keypt nýtt ef það gamla er orðið ónýtt, búið eða orðið of lítið.
Segðu stundum nei bara til þess að segja nei. Ég meina þetta ekki þannig að þú átt að vera dónaleg eða leiðinleg, en börn verða líka stundum að fá neitun. Þó það hafi einu sinni verið í lagi að fá ís og nammi sama dag, þótt það væri ekki laugardagur, þá gildi það ekki alltaf.
Barnið kann svo meira að meta það þegar þú segir já.
Það er svo mikilvægt að barn beri virðingu fyrir foreldrum sínum og sýni þakklæti þegar á við. Þú stjórnar ferðinni, ekki barnið 😉
Krabbastelpan Eva Rós er fædd árið 1989, á tvö börn og góðan mann. Eva er mikill áhugamaður um hverskyns gamanmál en einnig uppeldi, ferðalög, heilsu, líkamsrækt, vín, matreiðslu, veisluhöld, kokteilagerð og góða þjónustu. Mottó Evu í lífinu er einfalt: Hver er sinnar gæfu smiður