Stundum finnst mér gott að setja mig í spor sonar míns í erfiðum aðstæðum. Hann er jú einstaklingur eins og ég, með fullt af skoðunum og hugsunum.
Hér eru 11 umhugsunarverð atriði sem gætu hjálpað okkur að setja okkur aðeins betur í spor þessara litlu einstaklinga sem eru okkur háðir í einu og öllu.
1. Hvernig þætti þér ef nánasta fólkið í lífi þínu væri sífellt að segja þér hvað þú ættir að gera?
2. Ef þú missir stjórn á tilfinningunum þínum viltu þá ekki helst af öllu fá umhyggju og knús?
3. Hvernig myndi þér líða ef það væri ekki hlustað á þínar skoðanir?
4. Finnst þér einhvern tíman hægt að réttlæta það að tala illa til eða öskra á aðra manneskju?
5. Finnst þér ekki erfitt að hlusta á fólk þegar það er í tilfinningalegu uppnámi? Hlustarðu ekki frekar á manneskju sem segir þér hlutina á yfirvegaðan hátt?
6. Finnst þér ekki betra að tala við fólk sem er í augnhæð við þig frekar en að horft sé niður til þín?
7. Þegar þú ákveður að segja ósatt, – getur það ekki verið vegna þess að eitthvað stoppar þig í að þora eða vilja segja sannleikann?
8. Þegar einhver segir sífellt nei við þig án þess að gefa þér útskýringu á því, leiðir það ekki til þess að þú lærir að það sé í lagi að segja nei á sama hátt?
9. Væri ekki betra að fá útskýringar fremur en skipanir?
10. Vaknaru ekki stundum og ferð öfugu megin fram úr?
11. Þætti þér ekki leiðinlegt ef þú fengir aldrei að ráða neinu?
Börnin hafa tilfinningar rétt eins og við sjálf, þau eru ekki með sama þroska og við en þau hafa tilfinningar alveg eins og við.
Það eru til ótal margar réttar leiðir og engin leið er betri en önnur en það er oft gott að skoða hlutina út frá því hvernig börnin eru upplifa aðstæðurnar.
Sylvía er einkaþjálfari, yin jóga kennari, heilsumarkþjálfi og eigandi Optimal Health sem er andleg og líkamleg þjálfun fyrir konur. Sylvía býr á Spáni ásamt syni sínum og Oreo kisunni þeirra.