Oft þegar börn þurfa athygli eða upplifa miklar tilfinningar þá eiga þau oft erfitt með að stjórna sér.
Börnin kunna oft ekki að tjá sig um tilfinningar sínar enda skilja þau þær ekki til fulls. Það getur leitt til þess að þau “láta illa” og viðbrögð foreldra á þessum stundum geta mótað hvernig börnin upplifa þessar tilfinningar í framtíðinni.
Þessi tímabil geta stundum tekið á tauga foreldra og oft eru viðbrögð þeirra á þessum stundum að skamma þau eða refsa þeim fyrir “slæma hegðun”.
Ég reyni að skoða hvers vegna strákurinn minn hagar sér eins og hann gerir, börnin eiga erfiða daga eins og við sjálf, og þau skilja það enn verr en við sjálf.
1. Setjum okkur í þeirra spor
Þegar börn upplifa þessa hluti þá upplifa þau oft mikla vanlíðan og það getur verið enn erfiðara fyrir þau á þessari stundu ef foreldrar fara að skamma þau fyrir “óþekkt”. Börnin geta upplifað sig eins og þau séu ein í heiminum, enda er þetta oft kall á hjálp eða athygli og alls ekki óþekkt. Á þessum stundum getur verið mikilvægt að foreldrar gefa þá athygli sem þarf, m.a. að leika við barnið, tala við það og knúsa. Hjálpa því að læra að komast yfir reiðina, hjálpa því að skilja hvað er í gangi.
2. Ást í staðinn fyrir skammir og refsingar
Skammir og refsingar geta leitt til þess að barnið heldur að foreldrarnir elski það ekki eða elski það minna þegar það nær ekki að stjórna tilfinningum sínum. Það skilur ekki tilfinningarnar sínar og það þarf að fá hjálp til að skilja þær. Við þekkjum það eflaust flest sjálf að hafa einhvern tíman á lífsleiðinni skilið illa okkar tilfinningar, að hafa orðið reið í stað þess að vera leið eða brugðist of illa við þegar við fengum ekki það sem við vildum.
3. Að skilja tilfinningarnar
Sem barn er nauðsynlegt að fá skilning og útskýringar á tilfinningum, það getur leitt til tilfinningagreindar sem er góður eiginleiki að hafa.
Þegar við náum að tengja tilfinningar okkar við orð þá einfaldar það okkur að skilja þær og útskýra þær. Þegar við skiljum tilfinningar okkar leiðir það til þess að við getum frekar skilið tilfinningar annarra.
Ef við skiljum tilfinningarnar okkar þá lærum við í leiðinni að hafa stjórn á þeim, að hafa stjórn á tilfinningunum okkar leiðir til betri samskipta og betri líðan.
4. Gerum okkar besta
Horfum í augun á litlu gullmolunum okkar, sýnum þeim athygli sem þau þurfa, reynum að vera þolinmóð og hjálpum þeim í gegnum erfiða tíma. Gerum okkar besta og reynum að gera það sem er þeim fyrir bestu.
Aldrei of gamall til að leika sér #alvegeins ✌
A photo posted by Sylvía (@sylviasigurdar) on
Sylvía er einkaþjálfari, yin jóga kennari, heilsumarkþjálfi og eigandi Optimal Health sem er andleg og líkamleg þjálfun fyrir konur. Sylvía býr á Spáni ásamt syni sínum og Oreo kisunni þeirra.