Nú á 21 öldinni fá venjulegir millistéttarkrakkar margir allt upp í hendurnar og þurfa lítið að hafa fyrir því að eignast það sem þau langar í.
Einkadóttir mín er auðvitað meðal þeirra en þó hef ég reynt að innræta henni einhverja góða siði í peningamálum, að minnsta kosti það sem ég hef lært í gegnum tíðina.
Hún var sjö ára þegar hún fór í fyrsta sinn út á Eiðistorg að selja leikföngin sem hún var hætt að leika sér með og fékk heilar 9000 kr fyrir. Borgaði vinkonu sinni laun fyrir aðstoð og hélt restinni.
Þarna uppgötvaði sú stutta að maður gat skapað sínar eigin tekjur. Þótti þetta alveg stórmerkilegt.
Upp úr því fór hún fljótlega að vera meðvituð um að safna peningum, setja í bauk og leggja inn á bók þegar baukurinn var fullur. Hún fór að láta sig dreyma um að eignast eitthvað stórt eins og sjónvarp, polaroid myndavél eða iPad og keypti sér einmitt sinn fyrsta iPad fyrir peninga sem hún hafði safnað sér og býr vel að þessari reynslu. Semsagt, hún hefur lært að það borgar sig að safna fremur en að eyða öllu strax.
Fyrsta debetkortið
Um daginn fékk hún svo sitt fyrsta debetkort en eftir því hafði hún beðið mjög spennt. Henni finnst eitthvað fullorðins við það að hafa sitt eigið debetkort.
Það fyrsta sem barnið spurði að þegar hún fékk debetkortið sitt var hvernig hún gæti eignast meiri peninga inn á kortið. Svarið var auðvitað að VINNA.
-Hvað get ég unnið við? spurði hún þá en auðvitað var fátt um svör enda allar reglur breyttar. Við hringdum til dæmis upp í Mogga til að kanna hvað maður þarf að vera gamall til að byrja að bera út og svarið er 13 ára. Og barnapíur? Þær verða að vera 15 ára til að mega starfa sem slíkar. Breyttir tímar.
Þá gengur auðvitað ekki annað en að bjóða upp á vasapeninga gegn viðvikum og nú er slíkur listi í vinnslu: Sjá um ruslið. Þurrka af borði og hjálpa til við frágang eftir mat. Þetta hefur gengið ágætlega til þessa.
Millifærslur í hverri viku
Ég nota nýja Aur appið til að leggja inn á hana fyrir viðvikin en það er alveg ótrúlega einfalt og auðvelt í notkun. Ekkert hraðbankavesen (logga sig inn og allt það) og það gleymist heldur ekki að leggja aurinn inn.
Í framtíðinni sé ég fyrir mér að þetta verði mjög hentugt þegar að barnapössun kemur því hvaða krakkar muna banka upplýsingarnar sínar? Okkur mæðgum finnst líka ágætt að hún sjái ávinninginn vikulega, – margt smátt gerir eitt stórt. Annar kostur við appið er sá að það kostar ekkert að logga sig inn á það og millifæra svo lengi sem greitt er af debetkorti á annað debetkort.
Og svo framtíðin…
Þegar til nánustu framtíðar er litið finnst mér mikilvægt að innræta börnum að spara og ávaxta í stað þess að taka lán, skulda og borga háa vexti af lánunum.
Hversu margir hafa nú ekki farið flatt á því? Ha?
Það þarf að tala óspart og opinskátt um peninga og notkun þeirra að mínu mati því börn læra ekkert nema það sem fyrir þeim er haft. Það er eflaust að hluta til ástæða þess að börn þeirra efnuðu halda áfram með auðinn. Þeim er kennt að fara með hann.
Við þurfum að tala um hvað hlutirnir kosta, hvað er óþarfi og hvað er bruðl og svo framvegis og við verðum fyrir alla muni að forðast að innræta þeim skorthugsun. Hún er svo skelfilega leiðinleg og algjör ávísun á fátækt.
Ég á eflaust eftir að skrifa meira um þetta á næstunni enda skemmtilegur málaflokkur. Hér er smá klausa hjá Umboðsmanni barna um börn og fjármál og hér er góð grein á Forbes.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.