Hefur þér verið sagt að þú eigir að láta barnið gráta sig í svefn til að venja það við að sofna eitt á kvöldin ? Það taki svona þrjú kvöld að láta barnið fatta að það fái ekki athygli og læri þar af leiðandi að hætta þessu væli ?
Ég hef oftar en ekki heyrt þessar ráðleggingar og ég meira segja notaði þetta ráð á litla drenginn minn þar sem ömmur, mömmur, frænkur, svefnráðgjafar og hjúkrunarfræðingar sögðu að þetta væri eina ráðið.
Finnst þér ekkert skrítið að láta börn gráta sig í svefn, kvöld eftir kvöld eftir kvöld ? Svona þegar þú ferð að hugsa út í það ?
Líður þér virkilega vel að hlusta á barnið ? Innst inni, finnst þér þetta vera rétta leiðin ?
Mér var bent á grein sem ræðir þessi mál og eftir að hafa lesið hana þá skil ég ekki hvað ég var að spá, að fara eftir þessum ömmu, mömmu, frænku, svefnráðgjafa, hjúkrunarfræðingar ráði! Það er ekkert til sem heitir of mikil móðurást og börn verða ekki ofdekruð að við veitum þeim athygli. Þetta er gamalddags ráð sem við eigum að hætta að hlusta á.
Samkvæmt greininni getur það valdið meiri kvíða hjá barni að láta það gráta sig í svefn, það getur orðið stressað og við eigum ekki að neyða börn til sjálfstæðis. Við eigum að veita þeim það sem þau þurfa til að verða sjálfstæðari síðar meir og það gerum við ekki með því að láta þau gráta sig í svefn með tilheyrandi vanlíðan.
Mér finnst alveg vera kominn tími til að endurskoða þessa “láta barnið gráta sig í svefn” aðferð sem tíðkast hérna á Íslandi.
Að minnsta kosti ræða aðrar leiðir og skapa smá umræðu um þetta.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.