Samkvæmt nýlegum rannsóknum hefur komið á daginn að börnum og unglingum stafi talsverð andleg ógn af snjalltækjum. Þau einangrast, eru of mikið heima hjá sér, borða lélega fæðu og eiga ekki í miklum samskiptum við önnur börn, eða fullorðna, utan skóla.
Snjallsímavandinn er samt ekki bara barnanna. Við fullorðna fólkið erum líka í tómri vitleysu með þetta mörg hver. Snjallsímarnir og samfélagsmiðlarnir hafa bæði góð og slæm áhrif á okkar samskipti, og á margan hátt höfum við enn ekki náð að greina hvað er einmitt gott og hvað slæmt. En þetta er samt allt í þróun og stefnir til betri vegar. Ég vil að minnsta kosti trúa því.
Aftur að uppeldinu. Að ala upp lítinn einstakling sem síðar verður að fullorðinni manneskju með heilbrigða sjálfsmynd er ekki eins auðvelt og margir halda. Það er að segja, þetta gerist ekki bara af sjálfu sér.
Sérfræðingar í uppeldisfræðum hafa meðal annars komist að því að börn og unglingar þurfi nauðsynlega á eftirfarandi að halda:
- Foreldra sem eru til staðar tilfinningalega
- Skýr mörk og leiðsögn
- Ábyrgðarhlutverk
- Næringarríkan mat og nægilegan svefn
- Hreyfingu og útiveru
- Skapandi leik, félagslíf og tækifæri til að hangsa og láta sér leiðast
Sum börn fá þó allt lítið af þessu. Í staðinn fá þau:
- Foreldra sem eru andlega fjarverandi (e. Digitally distracted)
- Undanlátssama foreldra sem láta börnin „ráða heiminum”
- Þá tilfinningu að þau hafi mikið meiri réttindi umfram skyldur
- Ónægan svefn og næringarlítið mataræði
- Litla hreyfingu og mikla inniveru
- Endalaust áreiti; stafrænar barnapíur (iPad, iPhone etc), umsvifalausa umbun og engan dauðan tíma
Hvað er hægt að gera?
Auðvitað er best að þú, sem foreldri, setjist aðeins niður í smá sjálfsskoðun. Gerir stöðumat á því hvort þú sért að standa þig, að minnsta kosti gera þitt besta. Samviskubit er samt óþarfi því það er líklegast ekki að fara að skila barninu í betra jafnvægi. Samviskubitið gerir okkur gjarna of undanlátsöm – og því hefur enginn gott af.
Eftirfarandi atriði eru eitthvað sem mætti láta á reyna. Þetta mun að öllum líkindum bæta samskipti ykkar og um leið líðan barnsins.
- Sjáðu til þess að barnið þitt fái alltaf eitthvað gott og hollt að borða. Taktu kex, núðlur og þessháttar drasl úr skápunum og sjáðu til þess að þetta sé ekki til á heimilinu.
- Farðu daglega út í göngutúr með barninu. Það er svo gott að vera í náttúrunni. Eins er mikilvægt að fá barnið til að ganga eða hjóla í skólann, sé þess kostur.
- Símar og iPaddar eru alveg bannaðir við kvöldverðarborðið.
- Spilið á spil, eða borðspil.
- Gefðu barninu föst verkefni. Að minnsta kosti eitt á dag. Þau geta t.a.m verið það að brjóta saman þvott, ganga frá leikföngum, hengja upp föt, taka úr innkaupapokum og raða í ísskáp, leggja á borð os.frv.
- Komdu á mjög fastri rútínu með svefninn.
- Sjáðu til þess að ekkert nettengt tæki sé virkt í svefnherberginu eftir klukkan 22:00 á kvöldin. Keyptu venjulega vekjaraklukku fyrir öll svefnherbergi.
Þú ert hvorki skemmtikraftur né skutlari
Hvað varðar sjálfsábyrgð þá er mjög gott að koma börnum sem fyrst upp á það að koma sér sjálf í skólann og læra að nota strætó. Æfingar er gott að skipuleggja út frá þessu, það er að segja að það sé nægur tími á milli skóla og æfinga til að komast á milli með strætó.
Ekki skutlast með nesti, leikfimis eða sunddót til barnsins ef það gleymir þessu. Með því ertu að kenna því að taka ekki ábyrgð á sjálfu sér. Það gleymir þessu og þarf sjálft að taka afleiðingunum af því. Man þá betur næst að huga að þessu öllu.
Mundu líka að þú ert ekki skemmtikraftur í lífi barnsins þíns. Mörg börn og unglingar ætlast til þess að foreldrarnir séu einhverskonar skemmtikraftar sem sitja og standa eftir þörfum barnsins. Nenna ekki að labba út í búð nema foreldrið komi með.
Ég þekki konu sem þurfti alltaf að fara í bað með dóttur sinni, af því barnið, fjögurra ára, krafðist þess. Þetta er auðvitað rugl.
Við erum fyrst og fremst foreldrar barna okkar, uppalendur og leiðbeinendur. Ekki skemmtikraftar, skutlarar og leikfélagar.
Knúsaðu og kenndu barninu góða siði
Ekki hanga í tölvu eða símtæki að óþörfu fyrr en barnið þitt er komið í háttinn. Það gerir börnum ekki gott að eiga foreldra sem eru alltaf andlega fjarverandi. Við þurfum að tala við þau og hlusta á þau til að kenna þeim mannleg samskipti. Kenndu barninu þínu að heilsa kurteislega, deila með sér, sýna samkennd. Kenndu því góða borðsiði og hvernig á að taka þátt í samræðum.
Knúsaðu barnið þitt á hverjum degi, brostu til hans/hennar, lestu með því eða fyrir það og horfið saman á þáttaraðir í sjónvarpi sem höfða til beggja.
Kærleikur og stuðningur frá foreldrum ræður algjörlega úrslitum þegar það kemur að því að börn nái að skapa sér heilbrigða sjálfsmynd. Ef við erum alltaf andlega fjarverandi frá börnum okkar þá er ekki furða að börnin sjálf leiti annað eftir athygli og viðurkenningu. Til dæmis á samfélagsmiðla þar sem leynast allskonar hættur.
Gerum okkar besta til að finna jafnvægi í þessum síbreytilega, og stundum stórskrítna heimi. Höldum í hefðir sem hlúa að góðum samskiptum og pössum okkur á því að láta tækninýjungar ekki stela í burtu þessum dýrmætu mótunarárum.
Gangi okkur öllum vel!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.