Átt þú barn sem vaknar alltaf á nóttunni og kemur hlaupandi upp í til þín trekk í trekk með tilheyrandi svefntruflunum fyrir ykkur bæði?
Kannastu við að liggja andvaka með fót í stærð 26-32 í andlitinu og 28 tuskudýr ofan á þér þar til þú færð nóg og byrjar örvæntingarfullt að fletta í uppeldisbókum og “gúggla” með takmörkuðum árangri?
Hvað er til bragðs að taka? Jú, svarið virðist liggja í að takmarka aðgang barnsins að tækninni, hvort sem er sjónvarpið, tölvan, iPad eða leikjatölva.
Börn þurfa svefn. Meiri svefn en foreldrar þeirra. Þau þurfa að sofa til að stækka og þroskast andlega og líkamlega. Fullorðið fólk þarf vissulega svefn líka og ekki bara í nokkra tíma með annað augað opið heldur 7-9 klukkustundir.
En það er fullt af börnum (og fullorðnum) sem fá ekki þann svefn sem þau þurfa. Nýleg rannsókn á svefnvenjum barna á aldrinum 5-18 ára hefur leitt í ljós að það skiptir öllu hvað börnin aðhafast fyrir svefninn, í heilan einn og hálfan klukkutíma áður en farið er í rúmið.
Niðurstaðan sýndi fram á að þau sem sváfu ekki vel og áttu erfitt með að sofna höfðu verið að gera eftirfarandi áður en farið var í rúmið.
1. Horfa á sjónvarpið
Krakkar sem sofnuðu ekki á háttatíma horfðu á um það bil korteri lengur á sjónvarp en krakkar sem sofnuðu fyrr. Því meira sem krakkar dvelja fyrir framan sjónvarpið á daginn og fyrripart kvölds, því erfiðara er fyrir þau að sofna.
2. Tölvuleikir
Wii og Playstation tölvurnar hafa sömu áhrif og sjónvarpið jafnvel þó að sumir vilji ekki líta á þetta sem sama hlutinn.
3. Netið
Þetta gildir líka um rafbækur í spjaldtölvunni. Til að róa sig niður á kvöldin þarf að grípa í venjulega bók, liggja og fletta í rólegheitunum.
4. Sjónvarpið
Já, aftur. Það þarf að segja þetta tvisvar því sjónvarpsskjárinn virkar eins og vekjaraklukka fyrir heilann. Í raun virðist sitthvað benda til þess að sjónvarpið hafi áhrif á ákveðin svefnhormón því skjárinn kastar frá sér ákveðinni blárri birtu sem dregur úr því að við eigum auðvelt með að sofna.
Auðvitað er ekki til einhver uppskrift að því hvað við ættum að hafa krakkana okkar lengi fyrir framan skjáinn, hvort sem er tölvuskjáinn, sjónvarpið, iPad, snjallsímann eða annað tæki. Við erum öll misjöfn og sumir virðast nota skjáinn til að sofna en fyrir flesta gildir það að því fyrr sem hætt er að hanga fyrir framan kassann því fyrr er hægt að festa svefn og þetta gildir í raun fyrir alla í fjölskyldunni.
Þig líka.
Prófaðu að draga úr þessu skjáglápi hjá sjálfri þér og börnum og sjáðu hvort svefnvenjurnar batna ekki svolítið.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.