Ungt fólk með ungana sína er hópur sem opinn er öllum ungum og verðandi foreldrum á aldrinum 16-25 ára.
Markmiðið er að foreldrar og eða verðandi foreldrar kynnist öðrum í sömu sporum, deili reynslu og hittist með ungana sína á miðvikudögum í Hinu Húsinu í Pósthússtræti 3-5.
“Okkur er annt um að þessi hópur hittist og kynnist til að koma í veg fyrir félagslega einangrun og til að foreldrar geti miðlað reynslu sín á milli á jafningjagrundvelli,” segir Erla Gísladóttir sem stendur að þessum hittingum.
“Aðra hverja viku verður boðið upp á ýmiss konar fræðslu, kynningar og uppákomur sem tengjast barnauppeldi. Þau sem sinna fræðslu gera það í sjálfboðavinnu. Við erum alltaf að leita að einstaklingum sem vilja koma og vera með kynningar. Við höfum til dæmis verið með kynningar á burðarpokum, matarræði ungra barna á vegum hjúkrunarfræðinema, slysavarnir og skyndihjálp svo dæmi séu tekin,” segir Erla og bætir við að framundan séu meðal annars námskeið um svefn og svefnlausnir ungra barna, tónagull, ungbarnanudd, kynlíf eftir meðgöngu og margt fleira:
“Við reynum eins og við getum að mæta óskum foreldranna með fræðslur,” segir Erla.
Á morgun, miðvikudaginn 14 janúar 2015, er einmitt námskeið um svefnvenjur barna sem ungu foreldrarnir ættu að geta haft bæði gagn og gaman af en þú getur lesið meira um námskeiðið hér.
Hitt Húsið er miðstöð fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára.
Markmið Hins Hússins er að veita ungu fólki aðstöðu og aðstoð við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og endurspegla menningu ungs fólks.
Jafnframt veitir Hitt Húsið upplýsingar og leiðbeinir ungu fólki í samstarfi við aðra fagaðila og samtök.
“Aðgangur á þessi námskeið eða hittinga hjá okkur er alltaf ókeypis og opinn fyrir alla unga og verðandi foreldra á aldrinum 16-25 ára. Við fáum stundum gefins prufur af til dæmis barnamat og bleyjum til að gefa af og til á hittingum. Eins bjóðum við uppá þægilega aðstöðu með leikteppi fyrir börnin og djús, kex og kaffi fyrir foreldrana,” segir Erla að lokum og hvetur sem flesta til að láta sjá sig.
Ungt fólk með ungana sína er á Facebook og HÉR er umræðugrúppa á fésinu sem ungir foreldrar eru hvattir til að ganga í.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.