Í mörg ár hef ég lagt sérstaklega upp úr því að nota helst náttúrulegar og eiturefnalausar snyrtivörur. Þegar ég byrjaði á þessu voru í raun bara 2 merki sem var um að velja og það var Weleda og Dr. Hauschka.
En nú er sem betur fer alltaf að aukast úrvalið af náttúrulegum vörumerkjum og eins hafa rótgróin merki verið dugleg að bæta náttúrulegum vörum í safnið. Merkin sem ég mæli með og hef notað mikið eru t.d Aveda, Sóley organics, Organics, Dr. Hauschka, Botanics frá Boots og Bláa lóns kísillinn.
Þekkt merki eins og Dior, Biotherm, Body shop og meira segja Nivea hafa einnig komið með náttúrulegar snyrtivörur án parabena og meðfylgjandi er listi yfir þær náttúrulegu vörur sem ég hef fílað best:
Hreinsikrem: Ég er mjög ánægð með hreinsimjólk og augnfarðahreinsum frá Sóley organics og Botanics frá Boots, þessar vörur ná farða vel af, eru mild og erta ekki húðina.
Rakakrem: Dior Hydra Life kremið, eyGLÓ frá Sóley Organics, Blue lagoon anti-aging daycream,
Maskar: Silica mud mask (kísill) frá Bláa lóninu til að hreinsa og Herbalife Nourifusion Multi Vitamin moisture mask til að fá raka.
Lituð dagkrem: Inner Light tinted moisture frá Aveda og Dior Hydralife skin tint, bæði eru þau með SPF 20.
Púður: L’Oreal Bare Naturale Powder mineral foundation.
Sápur og Hárvörur: Ég elska hárvörurnar frá MOP en hef ekki fundið neinn stað sem selur þetta á Íslandi svo ég kaupi þær alltaf þegar ég fer erlendis. L’ Occitane er með frábærar hárvörur með yndislegum ilmum, mæli sérstaklega með hármaskanum þeirra. Nýju náttúrulegu” Earth lovers” sturtusápurnar frá Body shop eru líka frískandi og ilma dásamlega.
Svitalyktareyðir: Þeir eru flestallir sem þú finnur í venjulegum búðum “antiperspirant” en ég hef prófað náttúrulegu frá Biotherm, Dr. Hauschka, Weleda og Body shop og ég er persónulega ánægðust með ilm og virkni þeirra frá Body shop.
Líkaminn: Vatnsdrykkja er það besta sem þú getur gert fyrir húðina en ef þú ert með þurra húð mæli ég með að nota lífræna kókosolíu, ég nota þessa frá Himneskt sem fæst í Bónus eða frá Kolbrúnu grasalækni. Lífræn ólífuolía er líka mjög öflug og það er hægt að búa til æðisleg líkamsskrúbb með haframjöli, sjávarsalti, sítrónusafa og ólífuolíu.
Ég vona að þessar ábendingar koma að góðum notum, gaman væri líka að fá ráð frá ykkur varðandi náttúrulegar snyrtivörur.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.