Af hverju í ósköpunum toga karlmenn í eyrun á sér þegar þeir eru með dömu?
Ég man einu sinni eftir því að hafa farið út að borða með listamanni í París. Maðurinn var heillandi eins og menn eru en um það bil þegar við vorum að klára forréttinn hóf hann að toga í eyrnasnepilinn á sér. Svo fór þetta tog að ágerast þegar leið á kvöldið og hann færði sig upp eftir eyranu og hélt þar áfram að toga.
Ég hélt á þessari stundu að þetta væri einhver kækur hjá þessum listræna manni, hann væri bara svona artí.
Það varð ekkert meira úr þessum kynnum en æ síðan hef ég oft hitt akkúrat svona menn, sem toga mjög ákaft í eyrun á sér í návist minni. Merkilegt alveg. Hvort sem um er að ræða menn sem bjóða ungfrúnni eitthvert út eða hreinlega menn sem hún skiptir við, eins og fulltrúinn í bankanum eða afgreiðslumaður í verslun – allir eru eyrnatogarar! Ef til vill er þetta eitthvert táknmál sem brýst svona alveg ómeðvitað út – feimni eða vandræðagangur eða barasta hrifning… Það skyldi þó aldrei vera? Spyr sú sem ekkert veit, líklegast er ég bara magnet á eyrnatogara!?
Kannski má líka snúa þessu upp í einfalda formúlu: Ef honum finnst þú sæt þá fitlar hann við eyrað!
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.