Streita, stirðir liðir, skapsveiflur, heilaþoka og svefnleysi eru meðal nokkurra ástæðna þess að konur sem komnar eru yfir fertugt (lesist breytingaskeiðið) eiga það til að leita í lofti og láði að leiðum til að ná betra andlegu jafnvægi og bættri líkamlegri heilsu.
Ashwagandha (Withania somnifera), er svokölluð aðlögunarjurt (e. adaptogenic herb) sem á rætur í Ayurvedískri lækningalist sem nær 3.000 ára aftur í tímann. Þetta hefur reynst mörgum öflugt fæðubótarefni og þá sér í lagi konum sem eru á eða við breytingaraldurinn.
Hormónajafnvægi og stuðningur við tíðahvörf
Eins og þær sem hafa upplifað vita þá geta hormónabreytingar—sérstaklega við frumtíðahvörf og tíðahvörf— valdið erfiðu ójafnvægi í líkama og sál. Ashwagandha getur haft áhrif á innkirtlakerfið en rannsóknir hafa leitt í ljós að jurtin styður við heilsu nýrnhettna, sem gegna veigamiklu hlutverki fyrir stjórnun á kortisóli (streituhormóni) og stöðugleika á estrogeni og prógesteróni. Rannsókn frá 2022, þar sem 100 konur í tíðahvörfum tóku ashwagandha daglega, leiddi í ljós að marktækar jákvæðar breytingar urðu á hitakófi, nætursvita og pirringi samanborið við hóp sem tók lyfleysu.
Minni streita og meiri seigla
Langvarandi streita getur haft mjög slæm áhrif á konur á miðjum aldri vegna þess hversu fjölbreytta ábyrgð þær bera í lífinu um leið og þæ takast á við líkamlegar breytingar. Áðurnefndir aðlögunareiginleikar ashwagandha hjálpa líkamanum að takast á við streituna með því að lækka kortisólstig.
Í áhrifamikilli rannsókn frá 2019, sem birt var í Medicine, var sýnt fram á að konur á aldrinum 45–55 ára sem tóku 300 mg af ashwagandha-rótareyði tvisvar á dag upplifðu 28% lækkun á kortisóli og 66% bata á sjálfsmetinni streitu yfir átta vikna tímabil.
Þessi kortisóllækkun dregur ekki einungis úr kvíða heldur hefur hún einnig áhrif á þyngdaraukningu sem er algengt áhyggjuefni hjá mörgu nútímafólki. Með því að styðja við jafnvægi taugaboðefna getur ashwagandha einnig bætt geðslag og dregið úr einkennum af vægu þunglyndi.
Heilinn og ashwaganda
Heilaþoka, minnistap og sljóleiki eru meðal fylgifiska breytingaaldursins. Taugastyrkjandi áhrif ashwagandha stafa af andoxunareiginleikum jurtarinnar, sem vinna gegn oxunaráhrifum í heilafrumum. Í yfirgripsmikilli grein frá 2023 kom í ljós að ashwaganda getur bætt minni, athygli og framkvæmdafærni hjá fólki sem komið er yfir fertugt. Það gerir jurtin með því að auka framleiðslu á svokölluðu acetylchólíni og draga úr myndun beta-amýlóid. Einnig eykur hún virkni GABA (gamma-aminobýrusýru) viðtaka, sem stuðla að einbeitingu og eru því augljóslega sérlega mikilvægir fyrir konur sem oftar en ekki eru mæður, útivinnandi, yfirmenn, vinkonur, frænkur, í formi, systur og eiginkonur á þriðju vaktinni svo fátt eitt sé nefnt.
Orka og líkamleg afköst
Þreyta og töluvert minni líkamlegur styrkur fylgja oft hormónabreytingum. Ólíkt örvandi efnum sem gefa skammtímaorku, eykur ashwagandha skilvirkni hvatbera og ýtir undir frumuorkuframleiðslu. Í rannsókn frá 2021 í Journal of Dietary Supplements kom í ljós að konur á aldrinum 40–55 ára sem notuðu ashwagandha í 12 vikur upplifðu marktækan árangur í líkamlegu úthaldi og fundu aukinn vöðvastyrk og meiri einbeitingu.
Ónæmiskerfi og bólgur
Ónæmiskerfið veikist með aldrinum, sem eykur viðkvæmni fyrir sýkingum og langvinnum bólgum. Ashwagandha hefur ónæmisbætandi áhrif með því að örva hvítkornafrumur og hindra bólgumediatora eins og IL-6 og TNF-alfa. Fyrir konur yfir fertugu getur ashwaganda ekki aðeins styrkt varnir gegn sýkingum heldur einnig dregið úr bólgusjúkdómum á borð við liðagigt, sem verður algengari með aldrinum.
Öryggi, skammtur og ráðleggingar
Daglegur skammtur upp á 300–600 mg, tekinn með máltíð, er almennt ráðlagður til að vinna gegn streitu- og auka við hormónastuðning. Hins vegar ættu konur með sjálfsofnæmissjúkdóma eða skjaldkirtilsvandamál að ráðfæra sig við lækni áður en þær byrja að nota jurtina, þar sem ashwaganda getur örvað ónæmiskerfið eða skapað samspil við skjaldkirtilslyf. Að nota ashwaganda samhliða fleiri heilsueflandi aðferðum á borð við núvitundaræfingar, jafnvægisrækt og styrktarþjálfun— getur tvímælalaust aukið jákvæð áhrif.
Að endingu…
Ashwagandha hefur sýnt sig að vera sérlega gott bætiefni fyrir konur sem takast á við fylgifiska breytingaaldursins. Með því að milda sveiflur í hormónastafsemi, efla hugræna getu og auka líkamlega seiglu, ásamt því að hafa róandi áhrif sem bæta svefngæði og almenna upplifun af lífinu, ætti ashwaganda bætiefnið tvímælalaust að vera á topp 10 listanum yfir þau bætiefni sem konur á miðjum aldri nota að staðaldri.
Heimildir:
1 Ashwagandha and Menopause – Consensus
2 Stress-relieving effects of ashwagandha
3 Cognitive benefits of ashwagandha
4 Physical performance improvements
8 Menopause symptom relief study
9 Efficacy in perimenopausal women