Hér og þar heyrir maður fleygt orðatiltökum eina og „Konur eru konum bestar“ og hin sem verri er „Konur eru konum verstar“.
Það sem stingur mig alltaf er að konur eru settar undir sama hatt. Allar konur eiga að standa saman og allt það. Það dettur engum í hug að karlmenn eigi að standa allir saman, þeir eru ekki settir undir sama hatt.
Þessi orðatiltæki hafa kannski orðið vinsælli þegar konur loks sameinuðust og stóðu allar saman með því markmiði að krefjast jafnréttis og er það ekki eina málefnið sem virkilega skiptir máli að við stöndum saman um? Alveg sama hver áhugamál okkar eru, hvort okkur líki við hvor aðra eða ekki þá eigum við það sameiginlegt að við erum enn að berjast fyrir jafnrétti og því megum við ekki gleyma.
Tilgangslaust karp um hvaða áhugamál sé æskilegt eða óæskilegt að hafa eða tilvitnanir í útrúnnar stereótýpur; „feministar eru loðnar og ómálaðar“ eða að þær sem áhuga hafa á förðun og líkamsrækt séu að vinna á móti jafnrétti er auðvitað endemis bull.
Afhverju eiga allar konur að hafa sömu áhugamál frekar en karlmenn?
Ég get ekki séð að það styrki jafnréttisbaráttuna eða sameini konur að ráðast hvor á aðra með hroka og fordómum. Við erum eins ólíkar og við erum margar og það er ekki okkar að dæma hvort áhugamál kynsystra okkar séu ómerkileg eða ekki, verum bara fegnar að við erum ekki allar eins og fögnum fjölbreytileikanum.
Áfram allskonar!
Og PS. Mér blöskrar að ein kona sé lögð í einelti af allri þjóðinni vegna þess að hún“ misskildi sig“. Það veitir skotleyfi á hverja þá sem ekki er klár að koma fyrir sig orði eða hefur í óöryggi sínu mismælt sig?
Það er ekki hægt að réttlæta einelti – er það ekki það sem við kennum börnum okkar?
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.