Það varð uppi fótur og fit í netheimum yfir ummælum Páls Óskars þegar hann sagði gagnkynhneigða hvíta karlmenn vera eina hópinn sem fengi að lifa óáreittur og laus við fordóma.
Við mætum nefninlega öll fordómum, ég mæti til dæmis fordómum úr hópi feminista vegna þess að ég er pjattrófa en samt er ég líka feministi.
Ég vil jafnrétti, ég vil jöfn laun, jöfn réttindi og jafna virðingu á við karlmenn.
Mér finnst nefninlega leitt að horfa upp á að konur jafnt og menn eru komnar með fordóma fyrir feministum. Það er ekkert annað en misskilningur. Þó maður sé ekki sammála öllu sem mest áberandi feministarnir koma á framfæri þá má maður ekki afskrifa feminisma sem eitthvað rugl.
Þó þér líki ekki vel við Pál Óskar þá er þér ekki illa við alla homma -er það?
Ömmur mínar og mamma börðust ekki fyrir jafnrétti svo við gætum svo loks, þegar við erum að nálgast takmarkið, skotið okkur í fótinn og afskrifað feminista sem einhverjar “reiðar kellingar á túr”. Afsakið orðavalið en þetta er það sem maður sér og heyrir þegar umræðuefnið um feminista kemur upp á netinu.
Mér finnst þetta bara gott hjá Palla. Það er eitthvað til í því að það virðist vera í lagi að nota orðaval á við „Helvítis femínisti, helvítis kéllingar, helvítis hommar“.
En það eru ekki bara gagnkynhneigðir hvítir karlmenn sem taka svona til orða, það eru líka konur og hommar sem tala svona um hvort annað og það er alveg ömurlegt.
Fordómar eru byggðir á fáfræði. Gagnkynhneigði hvíti jakkafataklæddi maðurinn getur verið jafnréttissinni alinn upp af feminista, giftur pjattrófu sem á hommavini og verið algjörlega laus við kynþáttafordóma. Samt getur hann látið asnaleg ummæli sem þessi falla.
Vandamálið er að við erum öll orðin samdauna niðrandi ummælum á borð við þau sem Palli nefndi og kippum okkur jafnvel ekki upp við þau, en því þyrftum við að breyta til að sýna virðingu hvort við annað og hjálpast að að uppræta fordóma hvers kyns.
Ég segi eins og vinkona mín á Fésbókarstatus; „ Mér þykir vænt um marga hvíta gagnkynhneigða karlmenn!“ … og mér þykir líka vænt um marga homma, feminista og útlendinga.
Ég er samt ekki sammála Palla að samkynhneigðir þurfi “sér elliheimili”. Það er ekki partur af jafnréttissýn minni, fyrir utan að mér myndi leiðast afskaplega á mínu elliheimili ef hommavinir mínir væru ekki þar með mér.
Leyfum bara öllum að vera eins og þeir eru, um það snýst þetta!
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.