Glöggir lesendur hafa getað lesið að ég er einstaklega kresin á ilmi. Því er það mjög sjaldgæft að ég finni ilmvötn sem mér finnast góð en nýji ilmurinn úr smiðju Thierry Mugler er eitt af þessum fáu ilmvötnum sem ég fíla vel.
Vinsælasti ilmur Thierry til þessa hefur verið Angel.
Ilmur sem er svo sérstakur að fólk annað hvort elskar hann eða hatar… ég verð að viðurkenna að hafa fyrst elskað hann og svo hatað og þessvegna tók ég Womanity með fyrirvara – hrædd um að hann myndi minna á Angel.
Ég fékk mér Womanity body lotionið og það kom skemmtilega á óvart, ilmurinn er allt öðruvísi en Angel.
Womanity er ferskur, sætur og kryddaður á sama tíma, með ferskum sítrus, blandaður berjum, sætum fíkjum og kavíar!
Já þú last rétt kryddaði eða salti keimurinn kemur frá kavíar og hann er alveg passlega mikill til að gefa ilminum smá kraft.
Engum myndi detta í hug að “leynilega” kryddið í Womanity sé kavíar en þó passar það svo vel saman við hina ilmina og gerir þetta að afar sérstökum og góðum ilm.
Womanity body ‘lósjonið’ er bleikt að lit, gefur góðan raka og ilm sem dugar út daginn án þess að vera yfirþyrmandi.
Ég er hoppandi glöð yfir að geta bætt þessum flotta ilmi í litla safnið mitt og mér finnst bæði ilmvatnsglasið og bodylotion-flaskan flott hönnuð.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.