Ef þú ætlar að leyfa þér sólarpúður í dýrari kantinum mæli ég með Terre Saharienne frá YvesSaintLaurent úr sumarlínunni 2011.
Sólarpúður eiga það til að gefa manni mjög “skinkulegt” yfirbragð enda flestöll sólarpúður með glimmeri sem gerir bronsinn hálf gervilegan að mínu mati. Terre Saharienne er hinsvegar með örlitlum glans sem sést þó ekki á húðinni heldur lætur hana virðast nýkomna úr sólinni – fersk og falleg.
Þetta púður gefur húðinni náttúrulegan ljóma og mjög fallegan lit. Púðrið er í ljósari kantinum sem mér finnst mun þægilegra en dökk sólarpúður enda er ég nokkuð ljós á brún og brá.
Púður eiga það stundum til að þurrka upp húðina en þetta púður gefur mikinn raka sem maður finnur algörlega fyrir svo inniheldur það líka sólarvörn í styrk 12 -Við skulum nú samt nota sólarvörn líka!
Ég set púðrið aðallega undir kinnbeinin til að undirstrika þau, svo set ég lítið magn á enni, nef og höku sem gefur manni frískt útlit. Ég held að sólarpúður séu nauðsyn í snyrtibuddur allra íslenskra kvenna enda gefur það náttúrulegt og frísklegt útlit ef maður notar það rétt.
Sólarpúður eru algjörlega málið fyrir okkur!
Púðrið kemur í þrem mismunandi litum. Ég hef verið að nota ljósasta litinn, Apricot Sand. Umbúðirnar eru mjög klassískar YSL, brúnn kassi með gylltu merki og góðum spegli.
Stella Björt útskrifaðist úr Borgó 2010 og starfar nú sem verslunarstjóri í Topshop í Smáralind. Þess á milli tekur hún að sér stílistaverkefni og hefur tekið námskeið í stíliseringu í London College of Fashion en stefnir á fullt nám þar í framtíðinni. Stella er tvíburi.