Þessa daga er ég að nota vörurnar frá Sóleyju. Nýlega skrifaði ég um rakakremið eyGLÓ og nú er komið að hreinsimjólkinni HREIN og andlitsvatninu NÆRÐ.
Nöfn varanna frá Sóleyju eru bæði sniðug og einstaklega passandi!
HREIN andlitsmjólk er með kvöldvorrósarolíu og villtum íslenskum jurtum.
Þetta er mild en kröftug andlitsmjólk sem fjarlægir farða og óhreindi auðveldlega, ég náði meira segja maskaranum mínum af en sá maskari er nefnilega “of góður” og svo pikkfastur að ég þarf oftast að nota svona tvískiptan augnfarðahreinsi til að ná honum af.
Einstök samsetning kvöldvorrósarolíu og villtra íslenskra jurta hreinsa, næra og mýkja húðina og valda ekki þurrki. HREIN andlitsmjólkin er líka rík af andoxunarefnum en það er vísindalega sannað að kvöldvorrósarolía viðheldur rakastigi húðar og heldur henni ungri og teygjanlegri.
NÆRÐ andlitsvatn er róandi andlitsvatn með appelsínublómum og villtum íslenskum lækningajurtum (betula alba, achillea millefolium, salix phylicifolia, uva urse).
Þetta andlitsvatn kemur í úðaflösku og er afar þægilegt í notkun. Það er frískandi að spreyja því á sig og það leggur þunnt rakalag yfir húðina sem viðheldur jafnvægi hennar. NÆRÐ inniheldur íslenskt lindarvatn og kraftmiklar villtar íslenskar jurtir sem sefa og næra og halda húðinni ferskri og mjúkri.
Ég er afskaplega sátt og ánægð með þessa húðlínu og finnst hún enginn eftirbátur erlendra “náttúrulegra” snyrtivöruframleiðenda. Ég mæli hiklaust með vörunum frá Sóleyju, þær eru ekki bara góðar fyrir húðina heldur eru þær líka náttúrulegar, umhverfisvænar og íslenskar!
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.