Nú nálgast sumarið óðfluga og konur draga fram kjóla, stuttermaboli og buxur. Þetta er líka tíðin fyrir aukna húðumhirðu líkamans, því meira sem sést af hörundinu því betur vilja stelpurnar jú sinna því.
Númer 1. 2. og 3 er auðvitað húðburstun og notkun kornakrema, eða skrúbbs, en fátt fegrar hörundið jafn mikið og reglubundin notkun þessara vara. Á eftir þeim eru það sellókremin en hér ætla ég einmitt að fjalla Slimissime 360 frá Lancóme.
Þetta er gott krem af sinni gerð, inniheldur micro-perluagnir sem gefa ljóma og jafna áferð húðarinnar. Aðeins við að láta svolítið af gelinu á handabakið finnur maður hvernig það hefur stinnandi áhrif.
Ilmurinn er ferskur en jafnframt svolítið kryddaður, gott ef það er ekki smá appelsínukeimur og hann verður betri eftir því sem hann gengur inn í húðina. Meira mjúkur og kryddaður.
Þú finnur strax kælandi “sellókrems” áhrifin þegar þú berð það á þig og við mjög reglubundna notkun má greina breytingar á yfirborði húðarinnar.
Ég er sjálf heldur skeptísk á að krem geti brotið upp fitufrumur en ég trúi því sem ég sé og ég sé að þetta krem hefur stinnandi áhrif á húð sem slappast. Besta ráðið til að “losa um fitu” er hinvegar að borða rétt, hreyfa sig og drekka vatn en jafnvel á stinnustu vaxtarræktarkonum má sjá slappa húð og jafnvel appelsínuhúð.
Persónulega finnst mér gott að nota svona sellókrem á upphandleggina því þeir slappast jú og halda suður á bóginn til að spila bingó með vinum sínum eftir því sem árunum fjölgar. Stundum er líka gott að bera á rass og læri og þá sérstaklega yfir sumarið þegar stuttbuxurnar eru dregnar fram.
Á myndunum hér fyrir neðan má sjá nuddaðferð hannaða af sérfræðingum Lancome en þessari aðferð er ætlað að vinna Slimissime gelið vel inn í húðlögin og stuðla með því að losun fitufrumanna (ef það er hægt?).
Þau kalla þetta djúpvirkt hnoðnudd en það felst í því að þú gríður í húðina með báðum höndum og snýrð í sitthvora áttina til skiptis. Aðferðina sérðu á myndnum hér fyrir neðan.
Kremið kostar 7599 krónur og dugar í 12 mánuði.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.