Við Pjattrófur höfum að undanförnu fjallað svolítið um vörur frá hinu þekkta franska merki L’Occitane (borið fram loxítan).
Allar erum við sammála um gæði þessa merkis sem hefur fyrir löngu skipað sér sess meðal vandaðra snyrtivara enda frakkar ávallt framarlega í þessum efnum.
Eitt af því sem aðgreinir L’Occitane frá öðrum snyrtivöruframleiðendum er að fyrirtækið hefur aldrei sameinast öðrum risum á sama markaði. Fyrirtækið var stofnað í Frakklandi árið 1976 og enn eru allar vörurnar framleiddar þarlendis, að mestu úr frönskum hráefnum, blómum og jurtum úr Provence héraði.
Gildi L’Occitane eru þrjú
- Að örva öll skilningarvit: Umbúðir fallegar fyrir auga og snertingu, ilmurinn dásamlegur, allar umbúðir eru merktar með blindraletri.
- Haldið í upprunann: Á bak við allar línurnar er sönn saga sem rekur ættir sínar til Provence í Frakklandi en markmiðið er að kynna lífsstíl miðjarðarhafsbúa.
- Virðing: Virðing við náttúruna og umhverfið, fólkið sem kemur að gerð vörunnar.
Pivone Flora eða ilmur Bóndarósarinnar
Bóndarósarlínan kom á markað í fyrra og í henni er meðal annars að finna líkamskrem, förðunarvörur og fleira.
Í Frakklandi er hefð fyrir því að gefa mæðrum bóndarósarvönd á mæðradaginn en bóndarósin hefur einstaklega mörg blöð og kemur í mjög mörgum litbrigðum. Með þessum nýja ilmi er hin ofurfranska bóndarós lofuð í hástert en ilmurinn er unninn beint úr blöðum hennar.
Ilmurinn er í senn bjartur og kvenlegur. Hann er ekki þungur en þó er hann vel þéttur og grípandi. Í ilminum er einnig að finna snert af magnólíu og viðartónum sem gefa honum góða fyllingu. Pivoine Flora má nota bæði hversdags og spari og hann hentar konum á öllum aldri þó hann höfði líklegast sterkar til þeirra sem eru orðnar mæður 🙂
Flaskan er einföld, látlaus og falleg.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.