Ég er ein af þeim sem er nú ekki að stökkva á hvert einasta “better than botox” krem sem kemur á markaðinn og er reyndar frekar skeptísk á allt svoleiðis. Þess vegna lyftist hægri augnabrúnin á mér aðeins um daginn þegar vinkona mín sem vinnur í apóteki benti mér á að prófa Lancome Visionnaire.
Ég ákvað samt að slá til, svona í nafni tilraunastarfseminnar, ef ekki annað.
Eftir næstu sturtu ákvað ég svo að smyrja á andlitið á mér þessu “undrakremi” sem var að koma á markaðinn… “Pfffttt” hugsaði ég á meðan ég pumpaði því úr flöskunni og smurði á andlitið á mér, skeptisminn uppmálaður. En þegar ég bar þetta á andlitið á mér fannst mér koma mjög heillandi og skemmtilegur “glow” útfrá sanseringunni í kreminu og hugsaði sem svo að það væri þá ekki alslæmt- ennþá ríghaldandi í skeptismann.
En kæru lesendur, eftir aðeins nokkra daga varð ég að éta hattinn minn með tómatsósu og tilbehör og viðurkenna það að þetta krem virkar í alvöru!
Húðin á mér er einhvernveginn sléttari, lítur mikið heilbrigðari út og svo er áðurnefndur glow yfir andlitinu sem mér finnst svo heillandi. Flaskan er reyndar í dýrari kantinum en alveg mun ódýrari… jafnvel umtalsvert ódýrari en bótox og maður þarf ekki nema tvo til þrjá dropa í hvert skipti þar sem kremið er mjög drjúgt og þarmeð er dýrari kanturinn orðinn ennþá rúnaðri.
Ég skora á allar pjattrófur að prófa þetta krem sem hefur slegið rækilega í gegn bæði á Íslandi og víðar en helstu talsmenn þess eru m.a. Middleton systurnar Kate og Pippa ásamt fleirum.
Hrafnhildur, eða Krummi, er mamma, förðunarfræðingur, leikkona, kærasta, systir, dóttir, handverkskona og listakona svo fátt eitt sé nefnt. Ung flutti hún frá Sauðárkróki til Reykjavíkur þar sem hún lærði förðunarfræði en seinna flutti hún til Alabama, USA þar sem hún lærði leiklist. Eftir nokkur ár í Bandaríkjunum lá leið hennar aftur til Sauðárkróks og hún er því rödd landsbyggðarinnar á meðan pjattrófa. Hrafnhildur er fædd 21. febrúar árið 1980 og er fiskur.